Hlaupadagbók 2009

Mánudagur 9. mars. Nú var tími til kominn að fara Bakkabrekkuna róleg. Þrátt fyrir rólegheit kom verkurinn enn einu sinni og hætti ég eftir þrjár ferðir. Ca. 7 km

Mánudagur 2. mars. Fór í Bakkabrekkuna og ætlaði að taka því sæmilega rólega vegna verksins í hnésbótinni, en sleppti mér í síðustu tveimur ferðunum og fékk að gjalda fyrir það. Verkurinn bara versnar. 10 km

Miðvikudagur 18. febrúar.  Fór vetrarhringinn á sæmilegum hraða en var með leiðinda verk í hnésbótinni vinstra megin innanvert. Tók svo snarpar teygjur og styrk hjá Svövu á eftir. 10 km

Mánudagur 16. febrúar. Nú þegar allur snjór er farinn var kominn tími til að fara í Lindabrekkurnar. Fórum fimm hringi og tók ég svo einn stuttan í lokin. Ca. 10 km.

Laugardagur 14. febrúar. Fórum að heiman í Breiðholtslaug en þaðan var farið í Elliðaárdalinn austan megin, yfir stokkinn og svo eftir honum endilöngum þar til við skelltum okkur niður í Fossvog í gegnum kirkjugarðinn. Við Sigrún og Jökull skokkuðum svo inn Fossvogsdalinn og heim í gegnum Mjóddina. Þetta hafa verið um 22 km. 

Fimmtudagur 12. febrúar. Powerade fór fram í frekar leiðinlegu veðri, en samt ekkert á við desemberhlaupið. Nokkuð hvasst af austri og því góður meðvindur niður dalinn en að sama skapi móvindur upp rafstöðvarbrekkuna og síðasta spölinn að lauginni. Var á  ca. 4:08 tempói niður að stíflu og væntanlega eitthvað betra niður að Sprengisandi, en eftir það fór að hægja verulega á, enda kominn sterkur vindur á móti og færið leiðinlegra. Brekkan laus í sér og snjór í henni. Annars var hálka alla leiðina og gerðu naglaskórnir ekki mikið til að hjálpa spyrnunni en tóku vel á móti niður brekkurnar. Endaði á 45:16 sem var nokkuð hægar en ég hafi ætlað mér, en kannski er ekki hægt að ætlast til betri tíma í svona færi. 10 km.

Miðvikudagur 11. febrúar. Fór vetrarhringinn og keyrði ekkert rosalega. Fann fyrir sársauka í hnésbótinni vinstra megin og þorði því ekki taka of mikið á því út af Powerade. Sleppti að hlaupa niður að brú í þetta skiptið. 9 km.

Mánudagur 9. febrúar. Bakkabrekkan fimm sinnum  og einu sinni hálfa leið. Nokkuð hress bara. 10 km

Laugardagur 7. febrúar. Við Jökull fórum að heiman og upp að Elliðavatni og Seljahverfið til baka. 15 km.

Föstudagur 6. febrúar. Fór niður í Höll þar sem Sigrún  var búin að hita sig upp og í góðum gír og tók þar hálfan pýramída með nokkrum hringjum í upphitun. Ca. 5 km í allt

Miðvikudagur 4. febrúar. Það sama og venjulega og enn í kulda og trekki. Frekar þungt að hlaupa og manni sveið oní lungu. Vetrarhringur með brekkunni niður að Elliðaánum, sem er eiginlega orðinn fasti þennan veturinn. 10 km.

Mánudagur 2. febrúar. Bakkabrekkan fimm sinnum og svo  ein hálf ferð. Kalt og manni sveið í lungun eftir allt erfiðið. 10 km.

Laugardagur 31. janúar. Hlupum að heiman seinni partinn upp að Elliðavatni og til baka um Breiðholtið. Það var helvíti kalt og maður hélt varla á sér hita.  Jökli fannst svaka gaman enda frost og snjór hans uppáhaldsveður. Um 15 km.

Mánudagur 26. janúar. Farið í Bakkabrekkuna í SA roki og slyddu og nú jók þjálfarinn dagskipunina í 4 og hálfa ferð. Fór mínar fimm ferðir og nennti ekki að bæta meiru við. Var nokkuð hraður. 10 km.

Laugardagur 24. janúar. Hljóp að heiman niður í Fossvogsdal og fyrir Kársnesið í fljúgandi hálku. Veðrið var milt en suddi af og til og svellið blautt. Ca. 14 km í rólegheitunum.

Miðvikudagur 21. janúar. Endurtekið efni frá síðasta miðvikudegi. Hljóp með Arnari og tókum við vel á því og fórum kannski fullgeyst. Er með smá tognun í læri eftir hamaganginn. 10 km

Mánudagur 19. janúar. Enn  og aftur Bakkabrekkan. Er orðinn nokkuð snöggur upp og verð að fara að mæla hraðann svo ég geti fylgst með. 10 km.

Miðvikudagur 14. janúar. Hlaupinn hefðbundinn vetrarhringur með viðkomu á Elliðaárbrúnni. 10 km.

Mánudagur 12. janúar. Farið í Bakkabrekkuna og teknar fimm ferðir. Tók vel á því sérstaklega í tvær síðustu. Fannst ég halda þetta nokkuð vel út. Ca. 10 km

Laugardagur 10. janúar. Hlupum upp í Breiðholtslaug i fljúgandi hálku. Datt einu sinni á leiðinni, en slapp fyrir horn með meiðsli. Jökull brattur á sínum nöglum. Hefðum átt að vera á naglaskónum! Pælt í hvert ætti að fara þaðan, en ákveðið að fara í Heiðmörk. Flestir svartsýnir á þann kost enda flughált á leiðinni upp eftir. Sumir ákváðu að fara niður í bæ úr Norðlingaholtinu, en við skelltum okkur í Mörkina sem var mjög fín. Enduðum í ca. 23 km.

Fimmtudagur 8. janúar. Powerade hlaup í flottu veðri, ca. 5° hita og lygnu veðri. Fannst ég geta verið þróttmeiri í hlaupinu en djöflaðist áfram og fann helst fyrir þreytu í fótunum. Keyrði eins og undanfarið niður brekkurnar og var nokkuð sterkur upp þær líka (eða var a.m.k. ekki búinn þegar ég kom upp þær eins og aðrir hlauparar, kannski er hjólið að kikka þar inn). Síðast kílómetrann reyndi ég svo að halda betri hlaupastíl með hendur niður með mjöðmum og halla mér aðeins fram. Skilaði góðum hraða. Endaði á að setja besta tímann minn í 10 km hlaupi hingað til. Rúmar 42:06.

Mánudagur 5. janúar. Farið í Lindabrekkuna og dagskipunin 4 hringir. Endaði á að taka 5. Þetta gekk vel þó alltaf sé þessi hringur erfiður.  Ca. 10 km

Laugardagur 3. janúar. Skokkuðum að heiman í Breiðholtslaug, en þaðan var haldið sömu leið og tvo síðustu laugardaga. 19 km.

Föstudagur 2. janúar.  Hlupum að heiman með Jökul stuttan rúnt í kringum hverfið. 6 km.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband