Hlaupadagbók 2006

Miðvikudagur 27. desember. Farið á Kópavogsvöll og farnir átta 500m áfangar með 100m göngu/rólegu skokki á milli. Þetta var frekar erfitt, sérstaklega í lokin. Börkur kom með okkur á æfinguna og stóð sig mjög vel. Hljóp með mér til að byrja með, en fann svo eflaust að hann gat gert betur og fór síðustu fjóra hringina nokkuð hraðar en ég án þess að það sæist verulega á honum. Auk þess fór hann níu áfanga! Þetta voru sennilega um 11 km allt í allt.

Mánudagur 18. desember. Teknar voru brekkurnar í Bökkunum, fimm sinnum. Þetta fer að verða mjög kunnuglegt. Alls um 10 kmþ 

Fimmtudagur 15. desember. Fór í Powerade hlaupið og gekk bara bærilega. Það var ca. 5 stiga frost en stígurinn ekki mjög háll nema á stöku stað. Var samt með mannbrodda sem kom sér vel a.m.k. þar sem var hált. Hefði e.t.v. náð betri tíma hefði stígurinn veri auður og ég búinn að æfa meita en tvisvar í viku. Held að tíminn hafi verið rétt undir 48 mín. en ég gleymdi að líta á klukkuna þegar ég kom í markið. Update: Tíminn var 47:43.

Miðvikudagur 13. desember. Farið enn einu sinni í Bakkabrekkuna vegna almennrar hálku annars staðar. Fórum bara þrjár ferðir til að keyra sig ekki út fyrir Powerade hlaupið sem er í dag (fimmtudag). Þetta hafa verið um 8 km.

Mánudagur 11. desember. Fórum vetrarhringinn í fljúgandi hálku. Reddaðist vegna þess að mannbroddar voru undir skóm. Um 9 km auk þrekhrings í sal. Færið á hjólinu ver eins og best var á kosið fyrir þá sem eru á nöglum, flughált. Naglarnir ótrúlega góðir!

Miðvikudagur 6. desember. Hjólaði úr vinnunni í ÍR en þaðan var skokkað í Bakkabrekkuna og var dagskipanin 5 ferðir. Fór sex ferðir í einhverri vitleysu, en gekk samt bara vel. Þetta hafa því verið um 11 km af hlaupum og svo rúnturinn á hjólinu. Er farinn að hallast að því að þetta dutl á hjólinu sé að hjálpa til því mér finnst ég ótrúlega brattur í hlaupunum miðað við að hafa bara verið að æfa tvo daga í viku undanfarið. 

Mánudagur 4. desember. Aðeins hlaupið á mánudögum og miðvikudögum þessa dagana. Verð að bæta úr því. Annars var farinn hefðbundinn vetrarhringur í hálku og slabbi. Var sem betur fer á mannbroddum og gekk vel. Keypti nagladekk á laugardag og komu þau sér afar vel í gær og í dag þar sem svellbunkar þekja alla göngustíga. Dekkin (og naglarnir) virka ótrúlega vel og maður mjög stöðugur á hjólinu. Mesta hættan er að fara of hratt í beygjum.

Miðvikudagur 29. nóvember. Sama dagskrá og miðvikudaginn þar á undan. Gekk vel, en fór kannski eilítið of hratt. Þetta eiga ekki að vera sprettir heldur puð, að sögn þjálfarans. Ég puðaði nú helvíti mikið og var ekki eftir mig eftir ferðirnar fimm. Sleppti samt sjöttu ferðinni. Hjólaði úr vinnunni og svo heim af æfingu í fljúúúúgandi hálku. Fer í dag og fæ mér nagladekk og nýja bremsuklossa. vont að vera á hjóli sem bremsar ekki og er illviðráðanlegt í hálku. 10 km + hjól. 

Mánudagur 27. nóvember. Farinn venjulegur vetrarhringur. Náði ágætum hraða og var um 42 mínútur á leiðinni. 

Miðvikudagur 22. nóvember. Fórum í Bakkabrekkuna sem liggur frá Bökkunum í Breiðholti og að Breiðholtssundlaug.  Þetta er um hálfur km aðra leið og fórum við fimm ferðir. Þetta gekk mjög vel og náði ég góðum hraða upp brekkuna, sérstaklega í síðustu ferðinni. Fórum svo aukalega hálfa sjöttu ferð á töluverðri siglingu. Skokkað til baka í ÍR. Alls voru þetta um 10 km.

Mánudagur 20. nóvember. Eftir Lundúnaferð var slakað á í eina viku, en nú er prógrammið farið af stað aftur. Farinn vetrarhringur í frekar leiðinlegri færð. Styrktaræfingar á eftir. Hringurinn  ca. 8 km og hlaupið að heiman og heim þannig að hlaup hafa verið samtals um 10 km.

Miðvikudagur 8. nóvember. Farið frá ÍR niður í Smáralind þar sem teknar voru jafnvægisæfingar. Örn þótti hafa fallegustu stellinguna, enda myndhöggvari. Það var hlaupið upp Fífuhvammsveginn og alla leið upp í Salahverfi. Erfið en góð brekka. Þaðan var skokkað til baka og teknar nokkrar teygjur og styrktaræfingar. Kannski 8 km. 

Mánudagur  6. nóvember. Farinn klassískur vetrarhringur. Nokkuð góður sprettur og þrekhringur á eftir. Þetta eru sennilega um 8 km.

Fimmtudagur 2. nóvember. Hljóp 4 Lindahringi með smá upphitun. Í bjálaðri rigningu og roki hljóp ég svo upp Fífuhvammsveg og Salaveg að strætóskýlinu sem er efst á hæðinni. Skokkaði svo rólega heim niður malastíginn milli Rvk. og Kóp. Ætli þetta séu ekki tæpir 10km.

Mánudagur 30. október. Fórum  vetrarhringinn, með malarstígnum. Fann nokkuð fyrir ökklanum, verkur sem leiddi út í hælinn. Þrekhringur í sal á eftir. Hjólað í vinnu og úr og gengið með Jökul frá bílaverkstæði í Auðbrekku um kvöldið. Hlaup: rúmir 9 km.

Miðvikudagur 25. október. Frá ÍR og þrír Lindahringir. Þaðan upp Fifuhvammsveg og Salaveg þar sem hæðin er mest. Létt skokk þaðan og í ÍR. Fann til í hælnum sem sennilega er afleiðing ökklameiðslanna. A.m.k. átti verkurinn upptök í ökklanum. Hlaupið gekk samt vel og var ég bara helv. sprækur upp brekkkuna. Veit ekki hvað þetta er langt, en sennilega eitthvað nálægt 10km með öllu. 

Mánudagur 23. október. Fórum frá ÍR og klassískan vetrarhring. Var tiltölulega sprækur. Þessi hringur var 9,2 km 

Þriðjudagur 17. október. Fór fjóra Lindahringi  og var um hálftíma á ferðinni. Var að vísu tæpan klukkutíma með Jökul á undan svo þetta var ágætis hreyfing. Veit ekki hvað þetta voru margir km. Hljóp í rúman hálftíma.

Fimmtudagur 12. október. Fórum í fyrsta Powerade-hlaup vetrarins (10km). Maður var frekar spenntur að byrja aftur og eiginlega frekar tilbúinn. Gátum ekki hitað upp eins mikið og maður hefði viljað, en vorum  samt með fremstu mönnum í startinu. Ákvað að fara ekki of hægt af stað eins og stundum og fann ég greinilega fyrir því í hlaupinu. Tók fram úr nokkrum í brekkunni upp að Fellunum og var svolítið móður þegar þangað var komið. Reyndi svo að láta mig flakka niður brekkuna þar á eftir og reyndist það erfiðara en í fljótu bragði gæti virst. Hélt svo góðum dampi alla leið niður að Sprengisandi þó á stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna í fjáranum maður væri að pína síg svona. Síðustu þrjá km var ég orðinn frekar þreyttur enda búinn að vera á góðum dampi fram að því. Brekkan hjá Rafstöðinni var erfiðari en oft áður og fór m.a.s. einn fram úr mér þar. Síðasti km á malarstígnum var erfiður sérstaklega út af myrkri og fljóðljósum frá Fylki sem skinu beint í augun. Kom svo í mark á undir 47 mín sem má teljast gott því ekki er nema einn mánuður síðan ég byrjaði að hlaupa aftur. Sigrún var rétt um 50 mín sem er frábært hjá henni!

Uppfærsla: Minn tími 46:54 og Sigrún á 50:04.

Mánudagur 9. október. Frá ÍR niður í Hólmann. Teknir fjórir hringir, fyrri partur vaxandi og seinni partur hægt. Gekk vel og fann lítið fyrir ökklanum. Alls um 10 km.

Laugardagur 7. október. Við Sígrún hlupum að heiman niður í Víðidal, gegnum Árbæinn, yfir í Grafarvog, efst í Húsahverfi, framhjá Egilshöll og Korpúlfsstöðum, að endimörkum byggðar í Reykjavík, niður að sjónum og meðfram honum í átt til byggða. Enduðum með að sækja bílinn í Mosgerðið þar sem Sigrún hafði skilið hann eftir kvöldið áður. Þetta áttu að vera ca. 18 km en eru örugglega 25 km. Góður rúntur, en svolítið lengri dagleið en til stóð.

Mánudagur 2. október. Hljóp úr Hádegismóum  niður í ÍR á æfingu. Tók ca. 25 mínútur, væntalega um 5 km. Frá ÍR fór ég svo vetrarhringinn, þ.e. á milli neðra og efra og svo malarstíginn allal leið á stíginn meðfram Breiðholtsbraut. Hljóp þaðan heim Seljabraut og Skógarsel. Sleppti að fara niður í ÍR. Geri ráð fyrir að þetta hafi verið 14-15km í allt.

Laugardagur 30. október. Hlupum með ÍR-skokki frá Breiðholtslaug og Heiðmerkurhringinn. Ætluðum að fara ca. 16-18 km þennan morgun en enduðum á að fara ca. 22km. Vorum frekar þreytt undir lokin, en farið var hægt og þetta því lítið mál. 

Miðvikudagur 27. september. Farið á Kópavogsvöll og hlaupnir fimm hringir, 100m skokk - 300m hratt. Létt skokk til baka. Sennilega um 8 km. Fór til Kötu sem kæikti á hælinn og hnykkti. Var snöktum betri en á mánudag og munaði miklu um mjúka hlaupabrautina. 

Mánudagur 25. september. Sama og sl. mánudag: Frá ÍR áleiðis að Elliðaárstíflu og álagskafli þaðan að brúnni við Árbæjarlaug.  Aftur álag á malarstígnum niður að stíflu. Rólegt skokk niður í hólmann og álag frá rjóðrinu og niður að Sprengisandi. Rólegt skokk til baka. Þetta gekk bara vel, en fann aðeins meira fyrir ökklanum en síðast, sérstaklega undir lokin. Þarf e.t.v að fara aðeins rólegar í þetta. Var örlítið að þenja mig í dag. Borðaði enda kjötbollur í hádeginu og banana um hálfínn og átti því næga orku. Sennilega um 10km.

Laugardagur 23. september. Fórum að heiman um kl. 10 og hlupum um Víðidal, niður malarstíginn og í hólmann og þaðan heim um Mjódd. Þetta voru kannski ca. 12 km og fórum við hægt.

Mánudagur 18. september. Frá ÍR áleiðis að Elliðaárstíflu og álagskafli þaðan að brúnni við Árbæjarlaug.  Aftur álag á malarstígnum niður að stíflu. Rólegt skokk niður í hólmann og álag frá rjóðrinu og niður að Sprengisandi. Rólegt skokk til baka. Þetta gekk bara vel, en fann aðeins fyrir ökklanum. Sennilega um 10km.

Mánudagur 4. september. Fyrsta æfingin frá því í byrjun júní! Ákvað að nú væri að duga eða drepast. Sjá hvað helvítis ökklinn þolir. Æafingin var náttúrulega sett upp fyrir að vera erfið. fórum frá ÍR, stíginn milli efra og neðra Breiðholts, niður í dalinn, framhjá Sprengisandi og svo var sprett upp hitaveitistokkinn alla leið að Höfðabakka. Læt nú vera að ég hafi sprett, en tók vel á. Þaðan var svo skokk að Árbæjarlaug meðfram lóninu og svo sprettur frá brúnni og niður að stíflu. Fórum svo stystu leið að ÍR. Þetta voru um 12km. Hef hjólað í og úr vinnu nokkuð reglulega og hefur það hjálpað við að missa ekki allt úthald. Lappirnar voru samt eins og ristað brauð, grjótharðar og asnalegar. Fer á næstu æfingu ef allt veður í lagi.

Sunnudagur 3. september. Þar sem ég var ekki mikið eftir mig eftir hlaupið viku áður ákvað ég að fara aðeins lengra. Hljóð sem leið lá í gegnum Seljahverfið og niður að göngubrúnni yfir Elliðaár og til baka. Giska á að þetta séu um 10km. Þetta gekk bærilega enda fór ég hægt. Helst að ég finndi til á leið upp brekku. 

Laugardagur 26. ágúst. Var ekki eins heppinn og ég hélt þann 5. júní. Hef ekkert getað hlaupið síðan þá. Fór til tveggja lækna og er mér sagt að ökklinn sé í lagi en þurfi bara svona langan tíma til að jafna sig. Er ennþá bólginn en gat hlaupið ca. 6 km án þess að vera að farast og ætla kannski aftur eftir nokkra daga. Hef getað gengið og hjólað í sumar, en hlaup hafa valdið verk í ökklanum innanverðum. Stefnan var að byrja að mæta á æfingar í september og vonandi gengur það.

 Mánudagur 5. júní (annar í Hvítasunnu) - Tvær ferðir á Esju í fínu veðri en dálítið rok og þoka fyrir ofan læk. Missteig mig í fyrri ferð á leið niður í grjótskriðunni og svo aftur í seinni ferð, þá rétt ókominn  að stiganum. Í seinna skiptið var þetta mjög sárt og gat ég rétt skrönglast restina. Gat þó aðeins skokkað undir lokin. Kláraði svo að fúga eldhúsgólfið seinni partinn. Í dag 6. maí er ég haltur og geri ekki ráð fyrir að hlaupa næstu vikuna eða svo, ef ég er heppinn. 

Laugardagur 3. júní - Hljóp að heiman, frekar þreyttur andlega eftir eldhúsvinnu, áleiðis í Víðidal, niður Hólmann, inn Fossvogsdal að skólanum og heim. Þetta eru sjálfsagt einir 12-14 km. 

Miðvikudagur 31. maí - Frá ÍR í Hólmann og svo út Fossvogsdal og að Kringlumýrarbraut. Til baka  inn dalinn upp Bresugróf og áleiðis heim. Tók nokkuð vel á því en var einn megnið af leiðinni því flestir hlupu styttra vegna Krabbameinshlaupsins sem ég kemst ekki í vegna útskriftar Barkar. Gæti trúað að þetta hefðu verið ca. 12-13 km.

Mánudagur 29. maí - Frá ÍR var haldið í Fossvogsdal og hlaupnir tveir 2 km hringir með áherslu á að taka vel á því á seinni hring, sérstaklega fyrir þá sem ætla að fara í Krabbameinshlaupið á fimmtudag (sem ég kemst ekki í). Tók samt á þessu eins og fyrir var lagt. Erfitt á meðan á þessu stóð en mjög fljótur að jafna mig. Samtals um 10 km.

Fimmtudagur 24. maí - Hljóp með Andreu frá Árbæjarlaug og Heiðmerkurhringinn. Þetta voru um 23 km og vorum við rétt rúma 2 tíma. Komum beint í pylsupartí hjá Sjálfstæðisflokknum og skelltum okkur svo í heita pottinn á eftir. Var þreytttari en ég hélt eftir að ég kom heim og sofnaði í rúman klukkutíma. Eftir kvöldmat hresstist ég og kláraði að rífa niður gamla eldhúsið.

Miðvikudagur 24. maí - Hlaupið frá ÍR í Hólmann og teknir 5 hringir með áherslu á að taka vel á því á beina kaflanum undir lokin. Gekk bara vel, en svolítil þreyta í löppunum. Um 10 km.

Þriðjudagur 23. maí - Þar sem Esjan var ekki álitleg sökum hvassviðris ákváðum við Sigrún að skella okkur í tröppurnar  í Kópavogsdal upp á Digranesháls. Byrjaði á að hlaupa upp brekkuna og niður tröppurnar - upp tröppurnar - niður tröppurnar - upp brekkuna - niður tröppurnar - upp tröppurnar - niður tröppurnar - og til baka heim. Þetta eru ekki nema um 8 km, en erfitt. Fór svo á Ian anderson á eftir. Frábærir tónleikar!

Mánudagur 22. maí - Frá ÍR var haldið niður í Fossvogsdal og dagskipunin var fimm 1 km hringir á góðum hraða (ekki of hratt samt, ca. hálfmaraþon hraði). Náði best um 4 mín./km. Fannst þetta ekki mikið streð þó erfitt væri, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að hlaupnir voru 32 km á laugardag. Alls var vegalengd dagsins um 12 km.

Laugardagur 20. maí - Ætluðum að hlaupa með ÍR en rétt misstum af þeim við Breiðholtslaug. Ætluðum þá að hlaupa öfugan hring og mæta þeim í Heiðmörk, en rétt misstum af þeim þar líka. Dagurinn var því svona: Frá Breiðholtslaug að Elliðavatni og suður fyrir það áleiðis Heiðmerkurhringinn. Eftir að hafa misst af hópnum í annað sinn héldum við áfram og stoppuðum til að fylla á vatn og fara á klósett í skúrnum. Þá voru komnir 16 km og ákváðum við þá að hlaupa sömuleið til baka. Þetta var skásti kosturinn í stöðunni því það var kalt og frekar kalt. Vorum orðin frekar þreytt í lokin og Sigrún komin með verk í vinstra hnéð, svipað og í Laugavegshlaupinu. Vonandi lagast það. Fékk líka smá sting í hægra hnéð, að mig minnir. Var svo óóógeðslega þreyttur yfir Júróvisjón og sofnaði yfir atkvæðagreiðslunni. Samtals hlaupnir um 32 km á ca. 3 klst og 30 mín. Inní því voru þó stopp.

Fimmtudagur 18. maí - Hljóp úr vinnunni niður í Fossvogsdal og til baka hitaveitustokkinn  sem liggur um Réttarholt og Grensás. Þetta eru að mig minnir rétt um 8 km. Fannst þetta fín vegalengd m.v. það sem á undan var gengið.

Miðvikudagur 17. maí - Hlaupið frá ÍR í Hólmann  og teknar þar 5 áttur. Fyrri hluti áttúnnar vaxandi en sá seinni hægt. Var frekar hress þrátt fyrir tvær Esjuferðir daginn áður en í lok þriðja hrings fór þreytan að segja til sín. Djöflaðist samt áfram og var þetta fín æfing. Heildarvegalengs um 10 km.

Þriðjudagur 16. maí - ESJA X2 - Mættum við Esjurætur kl. 18.00 og fórum fyrri ferð upp á ca. 37 mínútum, sem er mjög góður tími miðað við það sem við vorum að gera í fyrra. Tókum ekki tímann í seinni ferðinni, en hann hefur væntanæega verið svipaður. Aðstæður voru nokkuð góðar. Vindur í bakið á uppleiðinni, en frekar kalt á leiðinni niður. Í seinni ferð var snjókoma á efsta hluta leiðarinnar og frekar mikil drulla á stígnum. Því var farið mjög varlega niður sem olli því að manni var orðið ansi kalt þegar niður var komið. Sigrún var t.a.m. orðin náhvít á höndum. Í stað þess að skokka á milli brekkanna reyndi ég að ganga hratt alla leið og fannst það gefa nokkuð góða raun. Gaman væri samt að geta skokkað megnið af leiðinni. Það kemur kannski með meira púli. Vorum ekki sérlega þreytt, en það á eflaust eftir að koma.  Það var slatti af ÍR-ingum auk þess sem við mættum Hjölla með konu og barni. Missti ég af einhverju?Óákveðinn

Mánudagur 15. maí - Hlaupið frá ÍR niðrí Fossvogsdal og þar þrír 2km sprettir. Hlupum 1km hringinn tvisvar fyrir hvern sprett. Hljóp m.a. með Þór og tókum við fyrri hriginn hægar en tókum svo nokkuð vel á því þann seinni. Þetta tók vel á en samt ekki of erfitt. Gunnar Páll mælti  með hálfmaraþonhraða fyrir þá sem undirbúa sig fyrir Laugaveg, en ég hef á tilfinningunni að við höfum verið á rúmlega þeim hraða. Samtals 12-13km 

Föstudagur 12. maí - Hef ekkert hlaupið þessa viku vegna anna í eldhúsi. Ekki við eldamennsku heldur við að koma hita í gólfið. Fór samt í dag að heiman á Hattinn og hefðbundna leið til baka eftir að koma á malbikaða stíginn á móts við Húsasmiðjuna. Giska á að þetta séu um 10 km. 

Mánudagur 8. maí - Sunnudagurinn sat í manni en áfram skal hlaupið. Fórum frá ÍR og stystu leið niður í Hólmann við Elliðaárnar. Þaðan voru svo hlaupnir tveir hringir vaxandi. Þann fyrri var hlaupið yfir stokkinn upp framhjá Sprengisandi og til baka malarstíg sem byrjar á móts við göngin inn í Fossvogsdal. Ekkert stoppað fyrir næsta hring en gengið rösklega ca. 100-200 metra út á malbikaða stíginn sunnan við ána og svo hlaupið að sama malarstígnum og í rjóðrið. Fyrri hringur um 2,5 km og sá seinni aðeins styttri. Svo var hlaupið "rólega" í ÍR hús. Alls rúmir 10 km

Sunnudagur 7. maí - Í dag var frábært veður og fór hitinn í 18 stig kl. 3. Fórum í morgun að heiman áleiðis að Krónunnu í Seljahverfi - þaðan malarstíginn fyrir neðan Vesturbergið sem endar út við Breiðholtsbraut á móts við nýju Húsasmiðjuverslunina. Hlupum svo niður Víðidalinn meðfram ánni alla leið niður að sjó - Héldum svo aðeins áfram, fram hjá IH og snerum við hjá Sorpu. - Á heimleiðinni hlupum við framhjá Sprengisandi og svo malarstíg norðan við ána.- Síðasti leggurinn var svo stígurinn ofan við Bakkana og svo heim. Þetta voru akkúrat 20 km.

Föstudagur 5. maí - Hljóp að heimaní Víðidal - niður á Stíflu -  Göngustíg fyrir ofan Bakkana og heim. Þetta eru að mig minnir rúmir 10 km. Var lasinn í vikunni og hljóp því ekki frá því á mánudag.

Mánudagur 1. maí - Esjan tekin til kostanna. Komumst upp að Steini en nokkuð var af blautum snjó á sneiðingnum. Fórum styttri leiðina niður sem reyndist mjög blaut og sleip. Sigurður, Björn Rúnar og Jökull biðu eftir okkur og skemmtu sér við við leiki o.s.frv. Mædum ekki tímann í þessari ferð. Gæti hafa verið um 40 mín.

Laugardagur 29. apríl - Hlupum að heiman Heiðmerkurhringinn. Gekk mjög vel en ekki farið hratt yfir. Vegalengdin mældist tæpir 26 km í þetta skiptið og voru við um tvo og hálfan tíma á leiðinni. 

Fimmtudagur 27.apríl - Komst ekki á miðvikudag vegna þess að von var á rafvirkja, sem kom svo ekki. Hljóp að heiman að göngubrúnni yfir Elliðaár í Víðidal og til baka. Gæti trúað að þetta væru um 10 km. Fór heldur hratt af stað og var ótrúlega þreyttur strax á bakaleiðinni.

Mánudagur 24. apríl - ÍR heimili - Vífilsstaðavatn (rúmlega 5 km) - Sprettur í kringum vatnið (rúml. 2,5 km) - fór hringin á 10:20 - Skokkað rólega til baka. Samtals rúmlega 13 km. 

Fimmtudagur 20. apríl (sumardagurinn fyrsti) - Við Sigrún fórum fyrstu Esjuferðina á þessu vori á sumardaginn fyrsta. Vorum kominn að Esjurótum kl. 8.30 í góðu veðri þó nokkur dumbungur væri á fjallinu. Stígurinn var frekar mjúkur og sumsstaðar nokur drulla. Batnaði eftir því sem ofar dró þar til við komum að sneiðingnum. Þar var kominn töluverð lausamjöll ofan á harðari snjó og því ekkert vit fyrir fólk á strigaskóm að halda lengra. Skokkuðum léttilega niður. Best að minna sjálfan sig á það að fara ekki of hratt af stað því að á miðri leið var ég orðinn andstuttur og og slappur. Smá stopp og góður vatnssopi hjálpaði mikið. Tókum ekki tímann nema að Sigrún sagði að fyrsti legggurinn hefði verið mun betri en þegar við hófum Esjuferðir í fyrra.

Ekkert hlaupið um páskana. Ekkert nema leti! 

Mánudagur 10. apríl - ÍR heimili - Kópavogsvöllur. Hljóp 7 500m áfanga á vellinum á góðum hraða og hægt 100m á milli. Aftur til baka í ÍR-heimili. Samtals um 10km.

Laugardagur  8. apríl - Háalind - Víðidalur - Elliðaárdalur - Fossvogsdalur - Kárnes  - Kópavogsdalur - 20,1km með Garmin Foretrex. Hlaupagarmur Sigrúnar segir 21km og þurfum við að athuga þetta betur. Annars hljóp Sigrún þennan dag með Jóku, m.a. niður Laugaveginn (þann sem er í Reykjavík). Það voru ca. 20km.
 

Miðvikudagur 5. apríl - ÍR heimili - út Fossvogsdal að brú yfir Kringlumýrarbraut - þaðan 3 km sprettur inn dalinn inn Hólmann (pace ca. 4:15 min/km) - þaðan aftur að ÍR. Ca. 11 km alls. Fannst ég vera frekar þungur en vindur í bakið á  3km sprettinum hjálpaði mikið.

Mánudagur 3. apríl - ÍR heimili - Hólmi - upp hitaveitustokk í Ártúnsholti - yfir stíflu - áfram upp brekku við Hóla - malarstígur að Hólakirkju - Breiðholtslaug - stysta leið að ÍR heimili - 12km. Þetta var frekar erfitt, langar brekkur teknar á svolítilli fart. Reyndi að hanga í Hafsteini og Sigga Þ. sem tókst bærilega.

Laugardagur  1. apríl - Háalind - Víðidalur - Elliðaárdalur - Fossvogsdalur - Kárnes  - Kópavogsdalur - 21km

Miðvikudagur 29. mars ÍR-skokk. Fossvogsdalur - fimm 1km sprettir - fór hraðast 4.02/km Alls 13 km 

Mánudagur 27. mars -ÍR-skokk - Vaxandi - malarstígur neðan við Hólana - Elliðaárdalur - framhjá Víkingi og aftur að ÍR ca. 12 km

Laugardagur  25. mars - Háalind - Víðidalur - Elliðaárdalur - Fossvogsdalur - Kárnes  - Kópavogsdalur - 21km

 Aths. var búinn að hlaup ca. 3-4 sinnum langt þar af einu sinni í Heiðmörk (25 km)

Man ekki lengra aftur þegar fyrsta færsla var skráð í lok mars 2006


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband