101

Eftir stífan undirbúning fyrir Kaupmannahafnarmaraþonið er komið að því að minnka álagið eftir langar hlaupavikur undanfarið. Síðasta vika var sú lengsta hjá mér, en þá fór ég 101 km frá mánudegi til laugardags (sjá hlaupadagbókina). Hef ekki hlaupið svona mikið á einni viku áður þó að sumar vikur hafi náð 70, 80 og 90 km.

Hlaupið í Miðfirðinum um helgina gekk vel enda frábært veður í sveitasælu. Hlupum eftir veginum og aðeins þrír bílar keyrðu framhjá okkur leiðinni. Fékk annars hugmynd að maraþoni á leiðinni. Kannski ekki ný af nálinni þó ég hafi ekki heyrt um þetta fyrr. Þetta yrði hið svokallaða Miðfjarðarmaraþon og yrði með forgjafarsniði. Sá sem lengsta tímann á færi af stað fyrstur, sá sem væri með t.d. 5 mín betri tíma færi af stað 5 mín. síðar, hlauparinn með besta tímann síðastur o.s.frv. Þetta myndi tryggja að þeir sem aldrei vinna þrátt fyrir þrotlausar æfingar allt árið ættu séns á að verða fyrstir. Þetta myndi líka tryggja að allir væru að koma í mark á sama tíma sem myndi skapa skemmtilega stemningu. Gallinn er að til að þetta fyrirkomulag gangi er sá að allir yrðu að eiga skráðan tíma í maraþoni. Það mætti ræsa hlaupið við kirkjuna á Melstað og enda við Grettisból á Laugarbakka. Á leiðinni fram eftir, vestan megin Miðfjarðarár, myndi Eiríksjökull draga menn áfram og á leiðinni út eftir, austan megin ár, myndu menn og konur fyllast krafti fyrir lokasprettinn þegar að komið væri að Bjargi og einungis um 7 km eftir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband