Hvannadalshnúkur

Á toppnumVið Sigrún fórum loks á Hvannadalshnúk um helgina, en það hafði staðið til í þó nokkurn tíma. Um þarsíðustu helgi var ferðinni sem við ætluðum í frestað vegna veðurs sem kom sér bara nokkuð vel miðað við veðrið sem við fengum í þessari ferð. Gistum á Hofi og vöknuðum kl. 4 á laugardagsmorguninn en mæting var við Sandfell rétt fyrir kl. 5. Lagt var af stað um 5.30 í rigningarsudda en mildu veðri. Vandi var að klæða sig rétt svo manni yrði ekki of heitt, en á sama tíma ekki blautur. Niðurstaðan var því regnjakki og ullarbolur auk flísbuxna. Það tók um tvo og hálfan tíma að komast að jökuljaðrinum en þangað er tiltölulega létt fjallganga. GPS-ið mitt sýndi 1.054 m hæð á þessum stað. Þarna fékk fólk sér morgunmat en að honum loknum settu menn á sig belti með karabínu sem í var þrædd lína. Við Sigrún vorum í línu með sex öðrum og fórum fyrir hópnum ásamt Auði fararstjóra. Fyrsti hluti á jöklinum er gríðarlega löng snjóbrekka sem tók um þrjá tíma að ganga upp. Rétt eftir að sú ganga hófst gengum við upp úr rigningarsuddanum og við tók dæmalaust bjart veður þar sem varla sást ský á himni. Þetta leit sem sagt út fyrir að verða góður dagur á jökli. Þegar brekkunni lauk var áð og etið af nestinu áður en lokahnykkurinn að Hnúknum var tekinn, en það er um 5 km löng jökulslétta. Þessi leið leit svo sannarlega út fyrir að vera styttri en hún í raun var. Að þessari göngu lokinni var áð við Hnúkinn sjálfan, settir mannbroddar á skóna og innbyrt örlítil orka fyrir síðasta spottann. Þessi hluti er sjálfsagt erfiðasti hluti leiðarinnar en jafnframt sá skemmtilegasti þar sem þurfti eilítið að beita mannbroddunum til að komast alla leið. Töluvert var af lausum snjó sem var raunar í formi stórra ískristalla en þar undir var blár ísinn hvar mannbroddarnir náðu festu. Á Hnúkinn sjálfan komumst við svo um 13.30 og var það mögnuð stund. Útsýni til allra átta þó ekki sæist niður á láglendið fyrir skýjum. Það varð til þess að þetta varð allt mun tilkomumeira þar sem fjöllin stóðu upp úr skýjunum og jökullinn lék aðalhlutverk. Það sást allt til Herðubreiðar, Grímsvatna, Kverkfjalla, Lónsöræfa og annarra fjalla sem ég kann ekki að nefna.

Eftir um 30-45 mínútna stopp á Hnúknum var haldið til baka og gekk sú ferð vel fyrir utan að vatnsskortur tók að gera vart vð sig. Sæmilega gekk þó að bræða snjó í vatnsflöskum til að svala mesta þorstanum. Í heildina var þetta hreint mögnuð ferð þar sem veðrið skemmdi ekki fyrir. Auk þess voru ferðafélagarnir, sem við höfðum ekki séð fyrr né síðar, þrælskemmtilegir. Fararstjórn var til fyrirmyndar, léttleiki og ákveðni í bland.

Komum niður eftir um 13 tíma og skelltum okkur í sund á Svínafelli þar sem við hittum hafnfirska jöklafara sem voru að koma af Hnúknum í þrítugastaogþrettánda skipti. Þeir sögðu þetta einn besta dag sem þeir höfðu upplifað á jöklinum. Við heppin! Elduðum svo einfaldan en góðan mat á Hofi, röbbuðum við Martein húsráðanda og sofnuðum svo sæl og þreytt.

 Hér er myndaalbúm úr ferðinni: Smella hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband