Hlaupadagbók 2007

Mánudagur 17. desember.  Hlaupið frá ÍR í hífandi roki og rigningu. Mætti hundblautur eftir að hafa hjólað úr vinnunni og hafði ekki fyrir því að skipta um jakka því ljóst var að það skipti engu. Þeir fáu sem voru mættir lengdu í byrjun en við Sigrún sem vorum aðeins á eftir kusum að gera það ekki. Styttum meira að segja hefðbundna vetrarhringinn með því að fara hjólaleiðina mína að Seljaskóla og þaðan stystu leið til baka. Þetta hafa kannski verið 6-7 km.

Fimmtudagur 13. desember. Hlaupið Powerade hlaup í nýföllnum blautum snjó, en annars þokkalegu veðri. Færið var þungt sem sést á því að ég var um 2 mín. lengur. 

Mánudagur 10. desember. Farinn lengri gerð vetrarhrings eins og síðast. Var nokkuð sprækur, en náði þó Jóa ekki á endasprettinum. Fámennt, enda slæmt veður. Veðrið þó miklu betra þegar maður er kominn af stað. Það er alltaf þannig. Tæpir 10 km. 

Miðvikudagur 5. desember. Hlaupin lengri leiðin um Mjódd að Lindahringjum og teknir 4 slíkir. Tók ekki á öllu sem ég átti fyrstu þrjá en kýldi svo á það í þeim fjórða og brunaði upp brekkurnar. Tókum svo Fífuhvammsveginn upp í Salahverfi í lokin. Sigrún var sein fyrir en mætti að heiman með Jökul sem stóð sig með prýði. Tók hálfan auka hring með þeim. Samtals rúmir 11 km.

Mánudagur 3. desember. Greinilega ekkert hlaupið nema á mánudögum þessar vikurnar. Hef að vísu hjólað flesta daga sem heldur mér í þokkalegu formi. Annars var vetrarhringurinn lengdur aðeins í gegnum Seljahverfið og endaði í kringum 10 km. 

Mánudagur 25. nóvember. Sama og síðast mínus þrek. 9 km. 

Mánudagur 19. nóvember. Klassískur vetrarhringur og þrek á eftir. 9 km.  

Laugardagur 17. nóvember. Farið frá Breiðholtslaug í Heiðmörk og styttri hringurinn tekinn, sem ég hef reyndar aldrei hlaupið áður. Þar sem þetta var upphitun fyrir uppskeruhatíðina var boðið upp á styrkta drykki á leiðinni og leiki. Frábært hlaup og skemmtilegur dagur. Uppskeruhátíðin tókst vel og flestir ef ekki allir skemmtu sér vel. Hlaup 16 km. 

Miðvikudagur 14. nóvember. Smá uppákoma fyrir uppskeruhátíðina. Hlaupið niður í Elliðárdal, yfir stokkinn og stoppað hjá gömlu rafstöðinni þar sem þjálfari úr Boot Camp tók okkur í smá kennslustund. Skokkað sömu leið til baka. Hlaup 7-8 km. 

Mánudagur  12. nóvember. Klassískur vetrarhringur og þrekhringur í sal á eftir. Hlaup 9 km.

Fimmudagur 8. nóvember. Powerade hlaup, sem gekk vel þrát fyrir eymsli í mjöðm. Fékk mér ibufen klukkutíma fyrir hlaup sem hafði góð áhrif. Fór ekkert mjög hratt af stað en komst svo á skrið eftir ca. 1 km. Brekkan gekk vel og svo náði ég góður skriði niður brekkuna vestan megin við ána. Ákvað að láta mig flakka niður allar brekkur og skilaði það sér sennilega vel. Var ekki mjög þreyttur eins og oft um miðbikið og gat gefið í upp síðustu brekkuna og síðasta km sem er orðinn eins og best verður á kosið. Tók fram úr fullt af fólki en var orðinn sprengmóður undir lokin. Var samt búinn að jafna mig eftir ca. 15 sek. Tíminn var sá besti til þessa í þessu hlaupi eða ca. 44:55. Sigrún náði líka frábærum tíma eða ca. 47:25. Frábært veður og allar aðstæður eins og best verður á kosið.

Miðvikudagur 7. nóvember. Druslaðist á æfingu, en fann fyrir eymslum í mjöðminni og tók því frekar rólega. Æfingin byrjaði annars á því að Sigrún úhlutaði bleikum og bláum slaufum og bindum því nú líður að uppskeruhátiðinni þar sem þemað er bleikt og blátt. Þetta skapaði skemmtilega stemningu og var liðið skrautlegt með bleikar slaufur í hárinu og blá bindi. Teknir voru fjórir Lindahringir og tók ég seinni tvo af sæmilegum krafti. Smá bak- og magaæfingar í sal á eftir. Hlaup ca. 8 km

Föstudagur 3. nóvember. Skokkaði úr vinnunni vestur hitaveitustokkinn að Öskjuhlíð, en Sigrún skokkaði á móti mér (hittumst við Höfðabakkabrúna) . Hlupum svo niður kirkjugarðinn, inn Fossvoginn, út fyrir Kársnesið og heim. Það var strekkingur af vestri og hiti rétt ofan við frostmark. Helvítis eymsli í mjöðminni hægra megin. Sennilega vegna sárs á hælnum í vikunni sem olli því að ég haltraði í nokkra daga. Enginn garmur með í för en giskuðum á 17 km.

Mánudagur 29. október. Gat ekkert hlaupið í sl. viku vegna verkja framan á lærum auk þess sem við fórum í bústað  um helgina. Í dag var farinn klassískur vetrarhringur og svo tveir þrekhringir í sal á eftir. Hlaup ca. 9 km.

Laugardagur 20. október. Fórum með  hópnum frá Breiðholtslaug og Heiðmerkurhring. Fékk leiðinda tak framan á lærin sem væntanlega á upptök sín á miðvikudagsæfingunni. Var auk þess frekar þreyttur og greinilegt að engin löng hlaup hafa verið á dagskránni að undanförnu. Hlaupnir 21 km. 

Miðvikudagur 17. október. Digraneströppur svipað og 3. okt. nema hvað ég var miklu slappari þennan daginn. Var hálf orkulaus og illa fyrir kallaður. Tókum smá styrktaræfingar í sal og svo fund á eftir um uppskeruhátíðina.  Sennilega tæpir 10 km. 

Mánudagur 15. október. Hef ekki hlaupið í tæpar tvær vikur vegna anna og pestar sem ég fékk í sl. viku. En í dag var farinn vetrarhringur sem ég tók frekar rólega. Gaf þó aðeins í í gegnum Seljahverfið. Hljóp að heiman í ÍR og svo aftur þaðan og heim. Þetta hafa því verið rúmir 11 km. Í fréttum er það helst að Sigrún náði undir 50 mín. í Powerade hlaupinu á fimmtudag. Fékk hún tímann 47:58 sem er frábær árangur!

Miðvikudagur 3. október. Farið í Digraneströppur og brekkur. Tvær ferðir voru settar upp, sem sagt upp brekkuna, niður tröppur, upp tröppur (hverja tröppu), niður tröppur, upp brekku, niður tröppur, upp tröppur (aðra hverja), niður tröppur. Fór svo auka ferð upp tröppur og niður. Þetta var helvíti erfitt, sérstaklega ferð nr. tvö upp tröppurnar. Var samt með fyrstu mönnum. Er tiltölulega hraður upp brekkuna grunar mig. Ca. 10 km erfitt. 

Mánudagur 1. október. Fórum í smalamenmnsku í Tungu um helgina og því ekkert hlaupið nema á eftir rollum. Annars var fyrsti vetrarhringurinn tekinn þennan daginn. Var tekinn vaxandi og náði ég helvíti góðum hraða. Hringurinn var 9,5 km, en ég hljóp að heiman og heim og því hlaupið 11,5 km. 

Miðvikudagur 26. september. Skokkað í Lindahverfi og teknir fjórir Lindahringir. Á þriðja hring var ég gersamlega að drepast á eftir þeim Gunnari Páli og Arnari, en hélt þó í við þá. Á fjórða hring missti ég þá ca. 30 m fram úr mér og Gunnar Pál töluvert lengra er á leið. Drulluerfitt. Í lokin var svo tekin brekkan upp í Salahverfi frá Lindaskóla. Erfitt, en átti samt eftir slatta upp síðustu brekkuna. Skokkað rólega heim undan roki og rigningu. Sennilega um 10 km.

Mánudagur 24. september. Skokkað frá ÍR í hólmann og þar teknir tveir stórir hringir með vaxandi hraða. Var ótrúlega brattur á þessari æfingu og hafði ekki mikið fyrir þessu. Ca. 12 km. 

Föstudagur 21. september. Fórum eftir vinnu í frábæru veðri niður Kópavogsdal, út fyrir Arnarnesið, meðfram ströndinni áleiðis út á Álftanes, krók í Norðurbænum í Hafnarfirði, og enduðum svo í einhverjum Lundinum í Garðabæ hvar bíllinn var sóttur frá því kvöldið áður. Þetta voru um 17 km og mátti ekkert vera lengra fyrir minn smekk.

Miðvikudagur 19. september. Skokkuð lengri leiðin að Digraneströppunum. Tekið vel á því upp brekkuna og að tröppunum. Skokkað rólega niður og tekið svo vel á því í hverja tröppu upp aftur. Skokkað rólega aftur niður tröppurnar og tekið enn betur á því upp brekkuna. Varð ekki mikið á eftir Sveini og Sigurjóni, sem er bara nokkuð gott. Lengdin hefur verið innan við 10 km, en vel tekið á því.

Mánudagur 17. september. Farið í Fossvogsdal og tekinn einn 2 km áfangi, en svo skokkað "rólega" að brúnni yfir Kringlumýrarbraut og tekinn þaðan vaxandi 3 km sprettur í hólmann. Tók vel á því og fílaði mig nokkuð vel. Skemmtileg tilbreytni í þessari æfingu. 13 km. 

Miðvikudagur 12. september. Farið í hólmann og teknar fimm áttur með vaxandi hraða, en efri hringinn hægt. Gaf nokkuð vel í og nokkuð sprækur. Hlýtt í veðri eftir mikla rigningu fyrr um daginn. Tók nýja Asics Kayano 13 í notkun í dag. Um 10 km. 

Mánudagur 10. september. Frá ÍR í Fossvogsdal þar sem farnir voru tveir 2 km áfangar. Tók nú ekkert sérstaklega á því og fann fyrir svolítilli þreytu í hnjám og öklanum vinstra megin. 12 km 

Mánudagur 3. september. Frá ÍR níður í hólmann hvar teknir voru tveir 2,4 km hringir og einn lítill. Hlýtt en mígandi rigning. Ca. 12 km.

Laugardagur 1. september. Fórum seinni partinn með Jökul með okkur sem leið lá að Vífilsstaðavatni. Hlupum tvo hringi kringum vatnið og til baka heim. Jökull stóð sig vel og hljóp sennilega tvöfalt lengra en við. Veður var ágætt. Ca. 10 km 

Miðvikudagur 29. ágúst. Fyrsta æfing eftir maraþon í þéttri rigningu. Fórum í hólmann og hlupum þar einhverja hringi. Var óvenju þreyttur m.v. frekar létta æfingu. Sennilega rétt að fara rólega af stað eftir þetta þriggja maraþona sumar. Sennilega tæpir 10 km.

Laugardagur 18. ágúst.  Reyjavíkurmaraþon á 3:53. Rúmir 42 km.

Miðvikudagur 15. ágúst. Fyrsta æfing með ÍR skokk eftir Laugaveg - síðasta æfing fyrir maraþon. Hlupum Hattinn í rolighederne. 9 km.

Þriðjudagur 14. ágúst. Teknir þrír 1 km sprettir í Fossvogsdal. 10 km

Þriðjudagur 7. ágúst.  Skelltum okkur í skokk upp á heiði í leit að myndavél sem tapaðist í mega-veiði-/gönguferð á sunnudag. Fundum ekki myndavélina en skokkuðum og hlupum mestallan daginn. Veit ekki hvað þetta var langt, en náðum örugglega að skokka um 25-30 km.

Laugardagur. 4. ágúst. Tekinn rúntur í Heiðmörk. Ca. 26 km.

Fimmtudagur 2. ágúst. Eftir ágæta göngu í Brúarárskörð í gær tókum við Sigrún spretti eftir veginum sem liggur upp í Brekkuskóg. Tókum þrjá 1 km sprettir niðureftir og þrjá upp eftir. Samtals voru þetta um 10 km með upphitun og niðurskokki. 

Mánudagur 30. júlí. Hlupum Konungsveginn úr Brekkuskógi niður á þjóðveg og meðfram þjóðveginum í átt að Laugarvatni. Snerum svo við og tókum svo bílveginn aftur upp í Brekkuskóg. 24 km í bleytu og frekar leiðinlegu veðri. Var varla að nenna þessu en nausynlegt að hreyfa sig ef Reykjavíkurmaraþonið á að ganga upp. ca. 24 km.

Föstudagur 27. júlí. Hlupum rólega að heiman áleiðis í Elliðaárdal þar sem reknir voru 5km á tempói. Skokkað rólega heima. 11 km

Laugardagur 14. júlí. Laugavegurinn hlaupinn á 6:41 (sjá bloggfærslu). Ca. 55 km.

Miðvikudagur 11. júlí. Síðasta æfing fyrir Laugaveg. Skokkuðum rólega í ÍR en þaðan var "róleg" upphitun á grasið hjá Kópavogshæli. Tókum þar einn hring rólega og dóluðum svo heim. Menn orðnir svolítið þreyttir svo nú er um að gera að hvíla vel fram að hlaupi. Ca. 10 km 

Mánudagur 9. júlí. Farið á æfingu í Hólmann og  planið að taka sama og sl. mánudag. Tók helmingi minna og fór hægt. Fannst hlaupið á laugardag vera nóg puð í bili. Hlupum svo rólega heim. Gæti hafa verið um 11 km.

Laugardagur 7. júlí. Skelltum okkur í 10 km götuhlaup á Landsmóti UMFÍ og er skemmt frá því að segja að tímar voru bættir. Ég var á ca. 43:30 og Sigrún á rétt um 47 mínútum. Hefðum náttúrulega átt að taka því rólega, en svona er þetta þegar maður fer af stað að þá halda manni engin bönd. Brautin var nokkuð strembin þar sem hlaupið var frá Smáranum austur Dalveg, þaðan upp á Digranesháls og svo út á Kársnes og inn Kópavoginn til baka. Fékk í fyrsta sinn ógleðitilfinningu vegna íþróttaiðkunar síðan 1980, enda tíminn eftir því.

Miðvikudagur 4. júlí. Hljóp að heiman Í ÍR og þaðan í Hólmann þar sem tekinn var einn 2,5 km hringur og annar rúmlega hálfur og skokkað svo heim. Fannst Laugavegsfarar vera þreyttir og fórum við því rólega. Sennilega um 10 km.

Þriðjudagur 3. júlí. Skokkað á Esjuna, eina ferð, með Jökul meðferðis. Það var heitt og kappinn þurfti að kæla sig í læknum á leiðinni. Lagðist ofan í hann með sælubros á kjafti. Tókum því frekar rólega enda styttist óðum í Laugaveginn.

Mánudagur 2. júlí. Hljóp að heiman en farið var frá ÍR í Hólmann og tók ég tvo stóra og tvo litla hringi auk þess að taka lykkjuna upp fyrir lundinn fyrir hvern hring, sem sagt fjórum sinnum.  Skokkað hressilega heim þar sem Jökull beið einn heima úti á palli. Veit ekki hvað þetta var langt, en sennilega nálægt 15 km.

Laugardagur 30. júní. Fórum úr Núpsdalstungu og áleiðis upp Austurárdalinn í blíðskaparveðri. Þegar komið var að Hnausakoti var tími til kominn að fara úr bolnum því hitinn var slíkur. Fórum svo yfir hálsinn, Lomberveginn, yfir í Núpsdal og komum niður að Efra-Núpi. Utan við Neðra-Núp fórum við svo niður að Núpsá og hlupum meðfram henni og óðum  hana svo við Tungu. Þetta voru rétt um 19 km en lengdum upp í 20 með því að fara heimreiðina fram og til baka. Það sem telst til tíðinda hér er að Jökull hljóp með alla leiðina og var bara helvíti sprækur þrátt fyrir hitann. Hann nýtti hvert tækifæri til að kæla sig og skipti þá ekki máli hvort um var að ræða mýrarpolla eða laxveiðiár. Tók góðan sprett í hylnum fyrir neðan Núpsfossa og lagðist svo í ána nokkru neðar og hvíldi sig og kældi.  Fræbær dagur í sveitinni þar sem einng kom við skógarvinna í Brkarstaðaskógi og sammenkomst og matur um kvöldið.

Fimmtudagur 28. júní. Hljóp þessa 7 km í vinnuna og svo heim aftur eftir vinnu. Hitti Sigrúnu við Kók verksmiðjuna og hlupum við saman niður Elliðaárdal að göngunum inn í Fossvogsdal. Ég hljóp út dalinn og til baka heim um Mjódd á meðan Sigrún skellti sér beint heim enda von á gestum. Nú er greinileg þreyta farin að gera vart við sig og gott til þess að vita að Laugavegshlaupið er einungis eftir rúmar tvær vikur. Heimleiðin ca. 14-15 km þannig að dagurinn lagðist út með ca. 21 km. 

Miðvikudagur 27. júní. Farið í Hólmann í Elliðaárdal og tekinn hringur sem Sigurjón ofurhlaupari sagði vera 1,5 km. Allir sprettu úr spori og luku hringnum dauðuppgefnir enda reyndist hann 2,5 km. Sami hringur tekinn aftur á góðum hraða og svo í þriðja skiptið hægar og haldið heimleiðis í framhaldi. Þetta hljóta að hafa verið um 13 km í allt.

Þriðjudagur 26. júní. Fórum tvær ferðir á Esjuna. Veður var mjög gott og gekk fyrri ferðin vel. Í seinni ferð var hins vegar orðið mjög hvasst og sóttist ferðin upp verr en í þeirri fyrri. Bæði niðurhlaupin gengu vel og þá sérstaklega í seinni ferð. Finnst ég vera að ná ágætum styrk í þeim.

Mánudagur 25. júní. Dagskipunin var tveir 2.000 metra sprettir í Fossvogsdal. Hlaupið var svolítið hægar en þegar 1.000 metra  sprettir eru á dagskrá. Gekk vel þrátt fyrir mikinn hita og sól og tók einn auka 1.000 metra sprett. Lengdum svo heimleiðina með því að fara aðeins inn í Fossvogdalinn og til baka. Þetta urðu því 14 km.

Laugardagur 23. júní. Skokkað frá Breiðholtslaug áleiðis í Heiðmörk og hlaupinn "öfugur" hringur. Eftir það var farið norður fyrir Rauðavatn og þaðan á Hattinn sem hlaupinn var fram og til baka. Veður var frábært og sennilega 16-20 stiga hiti og heiðskírt. 35 km.

Fimmtudagur 21. júní. Fór einn að heiman um Seljahverfi áleiðis að Hattinum og hitti á leiðinni skokkhópinn sem ég slóst í för með. Eftir hattinn var hlaupið niður Elliðaárdal og Hólmann tekinn lykkja inn í Fosvogsdal og til baka heim um ÍR. Var mjög stífur í lærum, sennilega eftir Esjuferðina á þriðjudag, en það lagaðaist þegar á leið. Töluverð þreyta samt í kroppnum. 17 km hlaup.

Miðvikudagur 20. júní. Hlaupið niður Kópavogsdal á túnið hjá hælinu og þar teknir þrír hringir í djúpu grasinu með góðri hvíld á milli. Sama leið til baka. Ca. 10 km.

Þriðjudagur 19. júní. Skelltum okkur á Esjuna og var stefnan að taka tvær ferðir. Var drulluþreyttur í lok fyrri ferðar og Sigrún brunaði fram úr mér. Ákváðum svo á niðurleiðinni að fara hálfa ferð í viðbót til að gera ekki alveg út af við okkur þar sem þetta er fyrsta Esjuferðin í ár. Stefnum á að fara tvær ferðir í næstu viku. Þetta tók tæplega 1,5 klst.

Mánudagur 18. júní. Farið í Fossvogsdal frá ÍR og hlaupnir fimm 1 km sprettir. Fór sennilega heldur hægar en sl. mánudag, en þó munaði ekki miklu. Fór e.t.v. einn sprett undir 4 mín./km. Hlaupið til baka. Alls 12 km. 

Fimmtudagur 14. júní. Hljóp að heiman í vinnuna og svo aftur úr vinnunni gamla rúntinn í Grafarvog, Fossvogsdal, Kársnes og heim. Fannst ég frekar þreyttur undir lokin og kemur þar sjálfsagt til nokkuð stífar æfingar að undanförnu og ferða á Hvannadalshnúk. 7+18=25km 

Miðvikudagur 13. júní. Fór að heiman í ÍR en þaðan var farið í lundinn hólmanum. Hlaupnar 5 áttur og svo farið til baka. Fór þessar fimm áttur frekar hratt þrátt fyrir beinhimnubólguna. Sennilega um 12 km.

Þriðjudagur 12. júní. Skelltum okkur í Digraneströppurnar  eins og sl. þriðjudag og tókum aðeins meira á því en þá. Fórum þrjár ferðir upp tröppurnar og tvær upp brekkuna. Tók um 40 mínútur. Jafngildir a.m.k. 10 km æfingu. Kominn með beinhimnubólgu aftur. Næ vonandi að nudda hana úr mér.

Mánudagur 11. júní. Hljóp að heiman í ÍR en þaðan var farið í Fossvogsdal og hlaupnir fimm 1 km sprettir. Var hressari en ég átti von á og fór hraðast á ca. 3:50 mín./km. Hlaupið til baka heim. Allt í allt um 14 km. 

Miðvikudagur 6. júní. Farin sumarleið á Hattinn og þaðan upp á brú og niður dalinn niðrí Hólma , niður hann og þaðan til baka í ÍR. Tekin samfelld hraðaaukning frá brú og niður að stíflu og svo aftur úr lundinum og niður Hólmann. Tók svo aftur á því frá Garðheimum og að ÍR. Fannst þetta frekar létt þrátt fyrir nokkur stíf hlaup undanfarna daga. Nú verður gert hlé á hlaupum fram yfir Hvannadalshnúksferð á laugardag. Hlaupnir 12,5 km

Þriðjudagur 5. júní. Tókum Digraneströppur og brekkur í staðinn fyrir Esju því veðrið var hálf leiðinlegt. Vorum í þessu puði í um 40 mínútur. Má kannski gera ráð fyrir 8-10 km.

Mánudagur 4. júní. Fórum í Hólmann og stefnan á að taka tvo 2,4 km hringi með vaxandi hraða. Tók seinni hringinn með töluverðu trukki og fór svo einn styttri þar til Sigrún kom að ég tók eina áttu sem endaði með kapphlaupi okkar sem hún vann Angry Allt í allt voru þetta rúmir 12 km.

Laugardagur 2. júní. Farið frá Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði. Mætingin var mjög góð c.a 40 manns. Hrönn leiddi okkur suður fyrir Hafnarfjörð fram hjá Hvaleyrarvatni að Kaldárseli og upp á Helgafell og Sléttuhlíð til baka í laugina. Veðrið var mjög gott þegar lagt var af stað, en versnaði svo og varð' að roki og rigningu. Mjög hvasst var á fjallinu og áttu göngugarpar í erfiðleikum með að komast niður, en við hlaupararnir létum okkur bara hrynja fram af, enda eru harðsperrurnar í dag mánudag frekar slæmar. Vegalengdin var tæpir 27 km, fjallið meðtalið.

Þriðjudagur 29. maí. Fyrsta hlaup eftir maraþon. Fórum með Jökul ca. 4 km. Alveg nóg. 

Sunnudagur 20. maí. Hlaupið heilt maraþon í Kaupmannahöfn. Veður frábært, eiginlega of gott.  42,2 km

Fimmtudagur 17. maí. Fórum að heiman með Jökul í eftirdragi og hlupum um 3-4 km. Stutt og létt hlaup eins og ráð var fyrir gert. 

Mánudagur 14. maí. Hlupum frá ÍR í Hólmann þar sem planið var að fara tvo stóra hringi líkt og fyrir nokkrum vikum. Kaupmannahafnarfarar ákváðu að taka einn hring og bættu svo einum stuttum við. Allir í góðu formi þó lappir séu stífar og þreyttar. Bæti kannski við einu stuttu hlaupi við fyrir maraþon. Alls tæpir 9 km.

Laugardagur 12. maí. Farið frá Salalaug síðasta langa hlaupið fyrir maraþon. Hljóp ásamt Sigrúnu, Björgu, Eiriíki, Knúti og Maríu og Sveini í kringum Elliðavatn. Fórum frekar rólega (nema Sveinn) enda annað varla forsvaranlegt svona skömmu fyrir hlaup. Samtals 16 km.

Fimmtudagur 10. maí.  Fór í hádeginu úr Hádegismóum og fór efri hringinn í Elliðaárdalnum á maraþonhraða. Fannst það ekki hratt en segir eflaust til sín í heilu maraþoni. Rúmir 7 km.

Miðvikudagur 9. maí. Farið í Hólmann þar sem átti að hlaupa fimm stutta spretti, en K.farar ákváðu að fara frekar í róleheitum niðrá stokk og til baka í ÍR smá krókaleið. Sennilega ekki nema um 8 km. 

Mánudagur 7. maí. Æfing í Fossvogsdal þar sem hlaupnir voru þrír 2 km sprettir. Við Ásgeir ákváðum að halda aðeins aftur af okkur því nú styttist í maraþonið. Gekk svona og svona. Vorum á milli 4:20 og 4:30 en ætluðum að vera á ca. 4:50. Hraðinn hafði samt engin eftirköst enda höfum við farið nokkuð hraðar á fyrri æfingum. Æfingin alls 13 km.

Laugardagur 5. maí.  Farið frá Laugardalslaug kl. 9, en ég mætti aðeins of seint og missti því af hópnum. Ákvað því að hlaupa Sæbrautina í vesturátt og út fyrir Seltjarnarnesið. Á Lindarbrautinni mætti ég svo hópnum og tók með þeim góðan tempókafla. Lukum þessu svo með hring í Laugardalnum a la Snorri. Pottur á eftir. Tæpir 20 km.

Miðvikudagur 2. maí. Ákváðum að taka létta æfingu í stað spretta á Kópavogsvelli og fórum því nokkrir Köbenfarar fyrir Kársnesið og inn Fossvogsdal í ágætu veðri. Samtals 13-14 km.

Þriðjudagur 1. maí. Kaupmannahafnarfararnir Ásgeir, Hrönn og Björg ásamt okkur Sigrúnu hittumst við Salalaug og hlupum ýmsa króka út í Garðabæ, m.a. Sjálandshverfið. Til baka fórum við neðan við einbýlishúsabyggðina í Garðabæ áleiðis að Vífilsstaðavatni og svo hestastíginn þaðan í Salalaug. Þetta voru rétt tæpir 15 km.

Mánudagur 30. apríl. Farið í Hólmann og tekin önnur útfærsla en venjulega. Tekinn vaxandi hringur úr Hólmanum niður að rasfstöð, yfir hálfan stokkinn, þaðan á malarstíg og svo breiði stígurinn aftur upp í lundinn. Þessi hringur mældist um 2, 5 km. Farinn þrisvar sinnum. Fannst ég vera nokkuð brattur og tók vel á því undir lokin. Alls hlaupnir 13 km. 

Laugardagur 28. apríl. Hlaupið úr Núpsdalstungu út á Laugarbakka og til baka í frábæru veðri, 18 km hvor leið. Þetta urðu því 36 km í allt. Okkur Sigrúnu leið furðu vel þrátt fyrir lengdina þannig að æfigarnar eru kannski að skila sér.  

Fimmtudagur 26. apríl. Úr Hádegismóum hljóp ég sem leið lá í Fossvogsdalinn um stokkinn nærri rafstöðinni. Út dalinn og yfir Kringlumýrarbrautina þar sem ég snéri við og fór Kópavogsmegin til baka. Tók svo einn hring í Hólmanum áður en ég skilaði mér til baka. Þetta voru rúmir 16 km. 

Miðvikudagur 25. apríl. Farið í Hólmann og hlaupnir 5 hringir með álagi. Tók aðeins meira á en síðast. Var samt stífur í lærunum, sem batnaði þó er líða tók á. Bætti svo sjötta hringnum við með aðeins minna álagi. Skokkað "rólega" til baka. Alls um 12 km. 

Þriðjudagur 24. apríl. Hljóp í vinnuna og aftur heim klassíska leið. Það var mjög hvasst á suðaustan og ansi erfitt síðasta spölinn eftir að komið var fyrir Kársnesið. Fékk einhver leiðindi í mjöðmina, en vonandi hverfur það. Samtals 25 km. 

Mánudagur 23. apríl. Æfing í Fossvogsdal. Teknir fimm 1000 metra sprettir, sem ég ætlaði að taka frekar rólega. Hljóp þetta með Ásgeiri og Ásgeiri og án þess að við nokkuð yrði ráðið fór ég alltof hratt (4:10-4:18/km). Samt sem áður gekk þetta vel og endaði æfingin í 12 km.

Laugardagur 21. apríl. Mættum í Breiðholtslaug kl. 9 og lögðum leið okkar í Heiðmörk eins og aft áður. Fórum hefðbundna leið með Björgu, Ásgeiri og Hrönn en til að ná 30 km markinu sem stefnt var að tókum við krók í bakaleiðinni um Rauðhóla, norðanvert Rauðavatn og aftur inn á hefbundna leið hjá hesthúsum í Viðidal. Þaðan fórum við Hattinn til baka í laugina. Garmur Sigrúnar mældi rúma 30 km. fórum  örsnöggt í laugina á eftir. Næsta vika verður löng en eftir það ef stefnan að minnka magn fram að maraþoni.

Fimmtudagur 19. apríl, sumardagurinn fyrsti. Var kominn með hósta og einhverja slæmsku en ákvað að skella mér í hlaup því nú er að duga eða drepast í maraþonundirbúningnum. Farið var frá Árbæjarlaug og hring í Heiðmörk. Með í för voru Kaupamannahafnarfararnir Björg og Hrönn en einnig Arnar, Pétur og Maggi. Fórum mjög rólega af stað en svo var bætti í þegar halla tók undan og var síðasti spölurinn þar sem við Sigrún, Björg og Maggi hlupum saman farinn á 5 tempói. Skelltum okkur örskotsstund í pottinn og svo heim og í bæinn að skoða brunarústirnar í miðbænum. Sumir skelltu sér svo í Vesturbæjarlaugina, en við Jökull tókum okkur labbitúr eftir Ægissiðunni á meðan. Halupnir 21 km.

Þriðjudagur 17. apríl. Hljóp í vinnuna og gekk það val. Tók ca. klukkutíma og korters hlaup heim þar sem ég hljóp í hringi í Hólmanum og þaðan heim um Bakkana. Leið þokkalega m.v. það sem á undan var gengið. ca. 12-13 km.

Mánudagur 16. apríl. Eftir að hafa verið frá vegna beinhimnubólgu ákvað ég að skella mér á æfingu. Tók hana rólega og svo heppilega vildi til að farið var á mjúku stígana í Elliðaárdal. Farnir voru 5 klassískir hringir sem ég tók á hægum hraða. Skokkaði svo beinustu leið aftur í ÍR en Sigrún lengdi með örðum Kaupmannahafnarförum. Lappirnar voru bara nokkuð góðar eftir þetta sennilega má það þakka kvalafullu nuddi Sigrúnar á föstudagskvöld, en þá var djöflast á beinhimnubólgunni. Hlaup 10-11 km.

Fimmtudagur 12. apríl. Skaust í hádeginu og hljóp niður í Elliðaárdal yfir stokkinn og svo inn Fossvogsdal þar sem ég tók svo lykkjuna hjá Fossvogsskóla og til baka. Reyndi að halda mig á malarstígum því ég fékk mjög leiðinlegan verk í utanvert vinstra hné. Var orðið ansi sárt á tímabili, en ég gat þó skrönglast alla leið. Eiginlega hvarf verkurinn um leið og ég hætti að hlaupa og finn ég ekki fyrir neinu þegar þetta er skrifað um þremur tímum eftir hlaup. Þetta gætu hafa verið 11-12 km.

Miðvikudagur 11. apríl.  Jæja, þá er þessu vikufríi lokið og djöfulgangurinn byrjaður á ný. Aftur var það stutt og "létt" æfing í Fossvogsdal. Þar voru teknir 4 1.000 m sprettir. Tók vel á því í fyrsta spretti og náði mér varla eftir það. Hef sjaldan orðið eins uppgefinn í þessum sprettum þrátt fyrir vikuhvíld. Í heildina tæpir 11 km.

Miðvikudagur 4. apríl. Gunnar Páll bauð upp á "létta" æfingu sem samanstóð af fimm einnar og hálfrar mínútu sprettum í Fossvogsdalnum. Fór þann fyrsta feekar hægt en hefði, að sögn Hrannar, mátt keyra á fullu allan tímann því fimm sprettir eru hvort eð er ekkert svo mikið - ehemm. Með upphitun og niðurskokki um 10 km.

Þriðjudagur 3. apríl. Hljóp í og úr vinnu, 7 km í og ca. 8 km úr. Fórum svo á opna æfingu í Þjóðleikhúsinu á Hálsfestina hennar Helenu. Áhrifaríkt verk og hæfilega langt fyrir leikhúsþol mitt. Borðuðum á Ítalíu á undan, sem var voða næs. Samtals 15 km.

Mánudagur 2. apríl. Stefnan var tekin á spretti á Kópavogsvelli, en þegar þangað kom stungum við Sigrún ásamt Ásgeiri og Hrönn af og hlupum þess í stað fyrir Kársnesið, inn Fossvogsdal til baka í ÍR. Þetta voru alls 14 km.  Fórum svo í bíó á Hot Fuzz, sem var hreint ágæt vitleysa.

Laugardagur 31. mars. Farið að heiman í Heiðmörk um Seljahverfi og vestanvert Elliðavatn. Frá vatninu fórum við stærsta hringinn og snérum við þegar garmurinn sýndi rúmlega 18 km, en þá áttum við eftir ca. 1 km í klósettið við brúna. Hlupum sömu leið til baka að suðurenda vatnsins, en þaðan fórum við stystu leið heim í gengum nýbyggingasvæði í Þingum. Alls voru þetta 34 km.

Fimmtudagur 29. mars. Tók rúnt í hádeginu svipað og sl. fimmtudag úr Hádegismóum, hring í Elliðaárdal og til baka. Var ekki með garminn til að mæla vegalengd svo ég tók sex 1:30 spretti og 30 sek. hvíld á milli (hver sprettur hefur verið um 300 m). Síðasti spretturinn upp að Höfðabakkabrúnni var helv. erfiður. Ca. 9 km.

Þriðjudagur 27. mars. Þessi þriðjudagur var svipaður öðrum þriðjudögum að undanförnu, hlaupið í vinnuna og heim seinni partinn. Það sem gerðist þennan þriðjudag var að veðrið var gott allt þar til komið var fyrir Kársnesið, en þar blés hressilega á móti auk þess sem dimmt él kom yfir og fylgdi mér það sem eftir var leiðar heim. Leiðin var sem sagt; Moggi - Grafarvogur - Fossvogsdalur - Kársnes - Kópavogsdalur - Háalind. Morgun 7km, Síðdegi 18 km. Alls 25km

Mánudagur 26. mars. Frá ÍR 3 km skokk í Fossvogsdal, þar sem hlaupnir voru þrír 2 km sprettir og einn 1 km sprettur. Fór hraðast á rétt rúmum 4 mín/km sem er nokkuð gott á minn mælikvarða. Fann fyrir stífleika framan á leggnum hægra megin til að byrja með, sem lagaðaist þegar frá leið. Ætli hér örli á beinhimnubólgu? Skokkað sömu leið til baka. Vorlegt veður þó hitin hafi sennilega ekki farið mikið yfir frostmark. Samtals hlaupnir rúmir 14 km.

Laugardagur 24. mars. Lögðum af stað kl. 9 frá Breiðholtslaug en planið  var að hlaupa langt í Elliðaárdal, ca. 3 Powerade hringi. Gunnar Páll setti upp drykkjarstöð við stífluna sem setti skemmtilegan svip á þennan hlaupadag. Veðrið var hins vegar afleitt, rok og mígandi rigning. Létum það samt ekki á okkur fá og drifum okkur af stað. Fólk tók þessa hringi með mismunandi hætti, en við Sigrún nenntum ekki meiru þegar við vorum komin í 26 km, enda hundblaut og hrakin eftir tæpar 3 klst. í roki og rigningu.

Fimmtudagur 22. mars. Ekki stóð til að hlaupa i dag, en missti af æfingunni í gær vegna fundar í Lindaskóla. Hjólaði eins og venjulega í vinnuna, en skellti mér svo út í rokið í hádeginu og reyndi að líkja eftir æfingunni í gær, sem var á Kópavogsvelli. Teknir voru sex 300 m sprettir og létt 100 m skokk á milli. Ég hljóp héðan úr Hádegismóum áleiðis niður í Elliðaárdal og tóm fyrsta sprettinn hjá gömlu rafstöðinni. hélt áfram yfir stokkinn og upp dalinn sunnan ár. Sjótti spretturinn endaði rétt áður en ég kom að Höfabakkabrúnni. Skokkaði svo rólega þaðan aftur í Móana. Garmurinn sagði þetta vera um 9 km.

Þriðjudagur 20. mars. Tók þennan venjulega þriðjudagsrúnt, hljóp í vinnuna og svo heim lengri leiðina. Veðrið var með afbrigðum vont um miðjan dag en aðeins dró úr  vindi síðdegis. En helv. var það blautt. Tók eftir að ég var mun hressari á eftir en oft áður, sem boðar vonandi bara gott. Kannski farinn að venjast þessari sjálfspíningu aðeins. Samtals 25 km.

Mánudagur 19. mars. Fórum í Bakkabrekkuna og hlupum sex ferðir. Var okkur sem vorum í marsmaraþoninu skipað að vera ekki að þenja okkur og hlýddi ég því. Tók samt vel í lærin og var ég eiginlega drulluþreyttur á eftir. Tæpir 12 km.

Laugardagur 17. mars. Hvíldi frá miðvikudaegi fyrir marsmaraþonið. Það var snjór og frekar kalt þennan laugardagsmorgun, en ekkert sérstaklega hált. Þessir 21 km liðu nokkuð þægilega þó ég kenndi aðeins til í hægra læri framanverðu. Kom samt ekki í veg fyrir að ég væri á 1.41.05 í mark, sem mér finnst bara fínt.

Miðvikudagur 14. mars. Farið á Kópavogsvöll og þar hlaupnir sex hringir með 200 m sprettum og léttu 100 m skokki á milli. Sama leið til baka. Um 10 km.

Þriðjudagur 13. mars. Tók sama rúnt og fyrir viku síðan. Hljóp í og úr vinnu. Var mun hressari en síðast enda með vökva með mér. Alls um 25 km. 

Mánudagur 12. mars. Farið hefðbundna leið í Fossvogsdal og teknir fimm 1.000 metra sprettir. Fór að ég held hraðast á 3:50, kannski aðeins hraðar. Fór fyrstu tvo hringina mun hægar sem kannski skýrir hve hress ég var á tveimur síðustu. Fann samt fyrir þessu og núna (á þriðjudegi) er ég frekar slappur í framan lærunum (stífur væri kannski réttara að segja). Þetta er svo sem búið að vera smá vandamál undanfarið. Alls voru þetta um 12 km í hlaup og svo er náttúrulega hjólað með.

Sunnudagur 11. mars. Skelltum okkur út eftir að hafa komið að norðan frá því að fara á Emil í Kattholti. Skemmtileg sýning. Hlupum að heiman og hefðbundna leið niður í Elliðaárdal, niður dalinn austan megin, yfir stíflu og upp á Hattinn og stystu leið heim. Þetta voru 12 km.

Fimmtudagur 8. mars. Skellti mér út í slydduna og slabbið og  hljóp að heiman í gegnum Seljahverfið stystu leið að Hattinum. Hljóp þá leið á enda út að Breiðholtsbraut, niður dalinn, malarstíginn ofan stíflu, yfir stífluna og þaðan bein aftur upp á Hattinn. Fór sömu leið til baka en lengdi örlítið í lokin til að ná upp í slétta 15 km. Alls 94 km síðan á laugardag. Aldrei hlaupið svona mikið á svo skömmum tíma Sigrún fór í Powerade og stóð sig vel þrátt fyrir mikil hlaup í vikunni.

Miðvikudagur 7. mars. Hlupum á Kópavogsvöll, um Mjódd, þar sem átti að taka sex 300 m spretti, en við Sigrún, Ásgeir og Hrönn ákváðum þegar þangað var komið að hlaupa frekar ca. 15 km og fórum því þaðan fyrir sprettina. Hlupum Arnarnesið og til baka í gegnum Garðabæ, niður í Smárahverfið og þaðan í Kópavogsdalinn og Mjódd áleiðis að ÍR heimili. Þetta voru 16 km í heildina.

Þriðjudagur 6. mars. Stefnan er að safna kílómetrum þessa vikuna og því var þessu þriðjudagshlaupi bætt við. Hljóp fyrst í vinnuna, tæpa 7 km og svo heim aftur seinni partinn, en aðra og lengri leið. Fór úr Hádegismóum niður í Grafarvog og þaðan meðfram sjónum að Elliðaárósum. Inn Fossvogsdal, fyrir Kársnesið og upp Kópavogsdalinn. Þessi leið er að sögn Sigrúnar (sem hefur hlaupið hana) um 18 km. Þetta var eiginlega of mikið puð miðað við hvað þessi vegalengd er yfirleitt ekki mjög erfið. Klikkaði á því að vera ekki með vökva með mér, vatn og orku. Geri ráð fyrir að ég hafi hlaupið ca. 25 km þennan daginn.

Mánudagur 5. mars. Sama æfing og sl. mánudag, þ.e. þrír 2 km áfangar í Fopssvogsdal. Mældi ekki en fannst ég vera hraðari en síðast enda var ég orðinn frekar þreyttur. Samt fljótur að jafna mig. Alls 13 km. 

Laugardagur 3. mars. Fórum frá Breiðholtslaug niður í Elliðaárdal í fljúgandi hálku og var því hlaupið niður hólmann á malastíg niður að undirgöngum við Sprengisand, þar sem hlaupið var meðfram Miklubraut og svo stystu leið framhjá Glæsibæ að Laugardalslaug. Þaðan var farið meðfram sjónum niður í bæ. Hlupum yfir Austurvöll, Tjarnargötu í gegnum Háskólasvæðið og áleiðis að sjónum á stíginn við enda flugbrautarinnar. Þaðan lá leiðin í austur og enduðum við á fara meðfram stíflunni og upp dalinn og komum svo til baka stíginn hjá kirkjunni. Hlupum svo framhjá lauginni eina 150m til að ná þessu upp í 25 km. Vorum bara nokkuð hress og skelltum okkur svo á árshátið Moggans um kvöldið. Vel heppnuð árshátið það!

Fimmtudagur 1. mars. Fór að heiman áleiðis í Elliðaárdal Fór lengri leiðina austan megin, framhjá  Árbæjarlaug, malastíginn norðan megin ár niður fyrir stíflu og yfir ána á malarstígnum í Hólmanum. Svo sem leið lá upp fyrir Bakkana of hefðbundna laeið framhjá ÍR og heim. Þetta voru um 12 km sem ég hljóp á 12,1 km/klst. að meðaltali eða 5 mín./km

Miðvikudagur 28. febrúar. Hlupum um Mjódd áleiðis að tröppunum upp á Digranesveg, en þar var farin ný leið upp á Digranesveg, kókóttan stíg austan við tröppurnar. Svo var húrrað niður tröppurnar og þaðan upp brekkuna vestan megin og svo niður tröppurnar. Þegar þar var komið þurfti ég að hverfa af vetvangi til að sækja BRK, en restin af hópnum tók Lindahring og Sigrún og Björg fóru svi extra rúnt uppfyrir Salahverfið. Er ekki viss um hve langt ég hljóp, en það hafa varla verið meira en 7-8 km. Sigrúnar rúnuir var um 13 km.

Mánudagur 26. febrúar. Lagði sennilega of mikið á mig sl. miðvikudag og uppskar eymsli í mjöðm í kjölfarið. Gat því ekkert hlaupið fyrr en nú. Sigrún fór aftur á móti 16 km á fimmtudag og svo 30 km í sveitinni á laugardaginn. Helv. góð! Annars gekk þessi æfing skítsæmilega. Var samt frekar stífur í hægra læri ofanverðu, en það lagaðist undir lokin. Fórum  niður í Fossvogsdal og tókum þar þrjá 2 km áfanga á ca. hálfmaraþonhraða. Alls urðu þetta um 13 km með ferðum fram og til baka.

Miðvikudagur 21. febrúar. Skokkað frá ÍR um Mjóddina að Digraneströppunum. Dagskipunin var að sleppa því að fara upp tröppurnar en að taka brekkuna fjórum sinnum. Þetta er lengsta brekkan sem við tökum eða um 1 km. Maður var helv. þreyttur eftir fyrstu ferð en jafnaði sig vel á leiðinni niður tröppurnar. Síðasta ferðin var erfið, en ég lét mig samt ekki muna um að skella mér upp tröppurnar eftir síðustu ferð til að vera samferða Sigrúnu niður tröppurnar. Ákváðum svo að lengja heimleiðina ásamt nokkrum öðrum. Fórum sem leið lá að Smáratorgi undir Reykjanesbrautina og inn í Lindhverfið, upp Fífuhvammsveginn, framhjá Salaskóla og þaðan upp fyrir efstu blokkirnar í Salahverfi og upp á stíginn á milli R og K. Þaðan fórum við í Seljahverfið inn á hefðbundna vetrarhringinn og niður Skógarselið. Þetta voru rúmir 14 km.

Mánudagur 19. febrúar. Fara átti hefðbundinn vetrarhring, en ákveðið var að lengja og endaði þetta í 15 km. Beygt af vetrarhringnum hjá Fellakirkju og hlaupið niður dalinn og hlaupa átti svo upp hinum megin ár, en snúið við er við mættum hóp sem hafði farið "öfuga" leið. Haldið áleiðis niður dalinn á malarstíg niður að stíflu, yfir hana og upp brattan malarstíg upp á hattinn. Þaðan vanaleg leið í ÍR-hús. Tók ekki tímann, en ansi gott tempó.

Laugardagur 17. febrúar. Hlaupahópurinn fór til Þorlákshafnar í fjöruhlaup, en við sigrún hlupum að heiman gamalkunnuguan hring upp í Elliðaárdal, niður hann og úrt fyrir Kársnesið upp Kópavogsdal og aftur heim. Þetta gerði 21 km. Ættum að fara að bæta fjórðu æfingunni við og svo þeirri fimmtu einhverntíma í mars. Eftir hádegi skruppum við á Selfoss í afmæli til Birnu Kristínar og um kvöldið var svo árshátið hjúkkuklúbbsins með tilheyrandi mafíósadressum. Á sunnudeginum gengum við svo í Hjálmholt og sóttum bílinn, ókum til Selfoss og sóttum Björn Rúnar, sem var í næturgistingu. Fengum okkur bollur á Selfossi og ókum þaðan til Dóru frænku og fengum okkur meiri bollur.

Miðvikudagur 14. febrúar. Hef ekki hlaupið í tvær vikur vegna skíðaferarinnar til Frakklands. Skíðaiðkunin virkaði samt sem ágætis framstigsæfing. Fórum í Bakkabrekkuna og tókum sex ferðir. Lagði töluvert á mig til að halda í Gunnar Pál, Magga o.fl. í byrjun, en í 4. og 5. ferð fór ég fram úr þeim í lok brekkunnar. Í síðustu ferðinni var ég orðinn mjög þreyttur og andstuttur og kom þá seiglan í Gunnari fram. Þetta vorum um 11,5 km auk hjólreiða í og úr vinnu.

Miðvikudagur 31. janúar. Fórum loksins Lindahringina og var dagskipunin sex ferðir. Alltaf að auka! Fór fyrstu mjög rólega en bætti svo. Hljóp í félagi við þá Gunnar Pál, Magga og Arnar frá 2 til 5, en átti góðan endasprett og fór fram úr þeim í fyrstu brekku síðasta hrings. Svo er bara að fylgja þessu eftir. En nú verður ekkert hlaupið í tvær vikur þar til komið verður úr skíðaferð. Hlaup alls um 10 km.

Mánudagur 29. janúar. Farinn klassískur vetrarhringur. Við Sigrún fórum okkur frekar hægt enda frekar þreytt eftir laugardagsæfinguna. Tókum góðar teygjur á eftir og einn þrekhring. Tæpir 9 km. Hjólað í og úr vinnu eins og oftast.

Laugardagur 27. janúar. Frá Breiðholtslaug var haldið áleiðis niður í Elliðaárdal og þaðan út Fossvogsdalinn, tekið pissustopp hjá Nesti, en haldið áfram til vesturs meðfram sjónum um Nauthólsvík og að Hofsvallagötu. Snúið við þar og farin sama leið til baka nema að við lengdum með því að fara framhjá Elliðaárstíflu og upp dalinn til baka að lauginni. Þetta voru allt í allt 26 km. Með í för auk Sigrúnar voru Guðbjörg og Björg.

Miðvikudagur 24. janúar. Aldrei slíku vant var dagskipunin heilar sex ferðir í Bakkabrekunum í stað fimm eins og venjulega. Þetta gekk vel þí síðasta ferið væri erfiðust, en enginn rétt framan við mig lengur til að halda í við. Hver ferð er rúmur 1 km fram og til baka, að því er Sigrún mældi í þetta skiptið (6,75 km allt í allt). Frá ÍR í Bakkabrekku voru svo 2,2 km þannig að allt í allt voru þetta rúmir 11 km í dag.

Mánudagur 22. janúar. Farinn vetrarhringur. Um 9 km 

Sunnudagur 21. janúar. Hljóp að heiman, fyrir Kársnesið, inn Fossvogsdal, stíginn milli Efra- og Neðra Breiðholts og heim. Þetta eru að mig minnir um 16-17 km. Það var mjög kalt, en annars ekki mikið mál.

Miðvikudagur 17. janúar. Farnar fimm ferðir í Bakkabrekku, sem var launhál á köflum. Styttum okkur leið heim til að ná í Björn Rúnar í afmæli. Þetta hafa því verið tæpir 10 km.

Mánudagur 15. janúar  Eftir frekar erfiðan hjólatúr í og úr vinnu tókum við Sigrún vetrarhringinn, en frekar rólega. 9 km.

Laugardagur 13. janúar.  Farið frá Breiðholtslaug í Fossvogsdal, yfir Kópavogsháls framhjá Kópavogslaug, inn meðfram Kópavoginum, yfir brú yfir Kópavogslæk, út á Arnarnes, til baka um Nónhæð framhjá Gullsmára og niður í Kópavogsdal. Hlaupið upp dalinn áleiðis í Mjódd og þaðan um Bakkabrekku til baka að Breiðholtslaug. Þetta var frekar eftir sökum snjóþekju, en farið var hægt. Rétt um 20 km.

Fimmtudagur 11. janúar. Powerade-hlaupið fór fram í frosti og snævi þöktum stígum. Það var því frekar þungt að hlaupa og tíminn eftir því, 52.41. Fannst ég samt hafa farið hraðar miðað við þá orku sem þetta kostaði.  

Miðvikudagur 10. janúar. Farið í Bakkabrekkur. Við Sigrún tókum bara þrjár brekkur til að eiga svolítið eftir fyrir Powerade-ið. Allt í allt nálægt 9 km.

Mánudagur 8. janúar. Farinn hefðbundinn vetrarhringur. Tók vel á því þó það væri 6 stiga frost. Hjólað í og úr vinnu og út með Jökul í tæpan klukkutíma. Hlaup ca. 9 km.

Miðvikudagur 3. janúar. Frá ÍR var farin lengsta upphitunin fyrir Lindahringi, í gegnum Mjódd og þaðan Dalveg og undirgöng undir hann og Reykjanesbraut. Farnir 5 hringir. Var þreyttur og svangur fyrstu þrjá en frekar hress síðustu tvo. Skokk stystu leið í ÍR og svo hjólað heim. Þetta hafa verið um 8-9 km alt í allt. 

Þriðjudagur 2. janúar, 2007. Fórum stuttan rúnt með Jökul með okkur í Lindabrekkur. Fórum fjóra hringi frekar rólega. Vegalengd sennilega á milli 5 og 6 km.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband