Reykjavíkurmaraþon 2007
Mánudagur, 20. ágúst 2007
Í upphafi sumars var ekki á dagskránni að fara í Reykjavíkurmaraþonið, en þegar upp kom að við gætum styrkt Rannveigu vinkonu Sigrúnar við að safna peningum til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini kom ekki annað til greina en að ná í alla peningana og hlaupa heilt þon. Hugsuðum með okkur að þetta yrði bara rólegt og við myndum bara hafa gaman að þessu. Þegar til kom varð þetta sama peis í í Kaupmannahöfn. Hrönn Bergþórs hljóp með okkur og var þetta mjög skemmtilegt fyrir utan að svipuð óþægindi gerðu vart við sig hjá mér og á Laugaveginum, þ.e. velgja og máttleysi í fyrri hluta hlaups. Held að þetta megi að einhverju leiti rekja til spennu. Í þetta skiptið var ég með meira af salti og dembdi því í mig þegar ég svitnaði sem mest. Held að það hafi gert gæfumuninn. Annars vorum við bara helvíti góð og dönsuðum á drykkjarstöðvum, klöppuðum fyrir áhorfendum og hvöttum aðra hlaupara. Sigrún og Hrönn blöðruðu allan tímann og veit ég ekki hvernig þær fóru að því - gaman að því! Eftir ca. 21 km var Finni sem fylgdi okkur alla leið í mark, en hann dreymdi um vodka í stað vatns á drykkjarstöðvunum. Ekki get ég sagt að ég hafi fundið til sömu þarfar. Síðustu fimm km voru einna bestir hjá mér eftir að Sigrún dró upp danskan piparbrjóstsykur. Hann gaf mér þvílíkan kraft að ég hefði getað hlaupið mun lengra mun hraðar ef það hefði verið í boði. Lauk þessu á ca. 3:53 sem er mínútu bæting frá Kaupmannahöfn. Nokkuð sáttur við það þar sem nær enginn undirbúningur hafði verið í gangi frá Laugaveginum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.