Vinna í eldhúsi o.fl.
Mánudagur, 15. maí 2006
Þá er undirbúningsvinna í eldhúsinu í fullum gangi. Fékk Kidda Ha til að aðstoða og vera til ráðgjafar varðandi pípulagnir. Teiknuðum fyrst hitalögnina á gólfið og hreinteiknaði ég hana svo. Fékk leigða tvíblaða sög í Húsasmiðjunni og hóf að saga gólfið til að geta komið rörunum fyrir. Brothamar var svo notaður til að brjóta upp úr sagarfarinu. Þetta var hörkupúl en samt ekki eins erfitt og þegar við Bjössi mágur brutum bara með brothamri alla hitalögnina á neðri hæðinni, á baðinu og í forstofunni. Ég hefði sennilega borið beinin með brothamar í höndunum hefði Bjössi ekki hjálpað þá! Kiddi kom svo á laugardag og þá lögðum við 60m langt hitarör í gólfið og gengum frá Danfoss krana o.s.frv. Í gær flotaði ég svo í sárið sem var öllu meira mál en ég hafði ímyndað mér. Mér var sagt af konu sem ég þekki að ég vandaði mig allt of mikið. Kannski er það satt . Núna má eldhúsinnréttingin fara að koma og skilst mér á Sigrúnu að hún komi á föstudaginn. Þá á bara eftir að setja hana upp. Vonandi fæst mannskapur í það.
Annars fór Sigrún með tvo vinnumenn í Tungu á laugardag, þá Sigurð og Björn Rúnar. Sigurður verður út sauðburð en Björn Rúnar sennilega í tvær vikur ef amma hans gefst ekki upp á honum. Hef samt enga trú á því.
Börkur kom á föstudag heim úr óvissuferð eftir samræmdu prófin. Vel heppnað að hans sögn. Sjá á síðunni hans Barkarblogg. Það er gaman að segja frá því að ég hef aldrei kynnst öðrum eins sjálfsaga hjá 15 ára strák og hjá Berki fyrir samræmdu prófin. Minn maður lærði samviskusamlega fyrir prófin og sleppti öllu stressi. Ákvað að halda sig við þessa aðferð sem ég held að sé skynsamlegt. Vildi að ég hefði gert þetta líka (þ.e. sleppt stressinu).
Athugasemdir
Gangi ykkur vel með eldhúsið, það verður spennandi að sjá útkomuna.
Ólöf hjúkka, 16.5.2006 kl. 18:57
Já, takk Ólöf. Þetta er allt að koma. Nú á bara eftir að laga rafmagnið svolítið og smá má fara að skella þessu upp. Það má segja að það sé töluvert stuð að ganga frá þessu svona 6 árum eftir að maður flutti inn með tilheyrandi ryki o.s.frv. Tek þessu með brosi á vör - oftast ;)
Kiddi, 17.5.2006 kl. 09:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning