Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Jökull: Nýr fjölskyldumeðlimur.
Mánudagur, 10. apríl 2006
Í gær bættist nýr meðlimur í okkar fjölskyldu. Hann heitir Jökull. Móðir hans er svört og faðir hans gulur. Þau eru samt hvorki afrísk né kínversk og ekki af ætt manna. Jökull er sem sagt hundur af Labrador Retriever kyni. Þetta er svo sem búið að standa til lengi en bar samt brátt að. Sigrún hafði farið í frænkupartý og komist að því að Palli Páls frændi hennar ræktaði Labrador hunda. Hún hafði því samband við Palla sem sgðist vera með einn fjögurra mánaða gamlan hvolp sem hann þyrfti að losna við. Skutumst við því í morgun til Hellu til Palla og Höllu og til að gera langa sögu stutta þá kom Jökull með okkur heim. Jökull er hreint ótrúlega yfirvegaður hvolpur og hvers manns hugljúfi. Er búinn að athuga allt hér innanhúss hátt og lágt og læra á húsið og okkur. Honum finnst svolítið erfitt að fara upp og niður stigann en það er allt að koma.
Jökull líkist pabba sínum meira en lítið og er eilítið kubbslegur en ofboðslega sætur. Endilega skoðið myndirnar af kappanum í albúminu. Bæti við fleiri myndum fljótlega. Hér er albúmið
Ættbók Jökuls hjá Hundaræktarfélaginu hér.
Vinir og fjölskylda | Breytt 16.5.2006 kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Skemmtilegt að bíða
Sunnudagur, 2. apríl 2006
Fór í gær að skrá syni mína og vini á sumar- og ævintýranámskeið hjá KFUM í Vatnaskógi. Mættum um kl. 2 og var þá margt um manninn. Komumst fljótt að því að á undan okkur voru um 100 manns og því ljóst að við yrðum að bíða nokkuð lengi eftir því að komast að. Á sama tíma var í gangi vorhátið KFUM sem var óvænt skemmtun. Biðin sem okkur sýndist að yrði leiðinleg og löng varð því skemmtileg enda magt góðra skemmtiatriða. Á skjá við hliðina á sviðinu gat maður svo fylgst með hvar í röðinni maður var og því notið skemmtiatriðanna áhyggjulaus yfir því að mæta of seint í skráninguna með númerið sitt. Frábær framkvæmd hjá þeim KFUM mönnum. Sigurður komst svo í Vatnaskóg 11.-17. júlí og Björn Rúnar á ævintýranámskeið á svipuðum tíma.
Í dag skelltum við okkur svo á matarsýninguna í Smáranum. Mest bar á tilbúnum pítsum og öðru jukki. Keypti samt gómsæt laxahrogn úr Eyjafirði og fékk gefins kæfu og pylsur frá Goða. Eyfirðingarnir voru frumlegastir þarna. Buðu m.a. upp á frábæra saltfiskrétti og bláskel. Tvíreykt hangiket smökkuðum við líka og var það aldeilis frábært. Sigurður kom út með fimm poka af örbygjupoppi og slatta af blöðrum.
Hljóp 21km í gær og er að spekúlera að setja upp hlaupadagbók hér á síðunni til að fylgjast með magni æfinga. Var frekar þungur sérstaklega í Fossvogsdalnum en varð léttari eftir að ég kom fyrir Kársnesið. Hljóp sem sagt að heiman upp í Víðidal, niður Elliðaárdalinn, í gegnum hólmann, út Fossvogsdalinn, fyrir Kársnesið, inn Kópavogsdalinn og aftur heim. Góður rúntur, en svolítið erfiður síðasta spölinn.
Börkur tók miðprófið í gítarnáminu á föstudaginn og gekk vel að eigin sögn. Ég get vel trúað því, því hann var búinn að æfa sig gríðarlega mikið. Þetta eru því orðin 7 ár sem drengurinn er búinn að læra á gítar og er hann orðinn mikill snillingur á þessu sviði. Til hamingju með þennan áfanga Börkur minn.
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.4.2006 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)