Meiri fréttir - loxins

Þá er eldhúsið loksins að klárast. "Bara" eftir að smíða ljósakappa, flísaleggja veggi og annað smálegt. Nokkurn tíma tók það húsbóndann að koma uppþvottavélinni fyrir og viftan var öllu erfiðari þar sem hin svokallaða laghönd þurfti að leggja hönd á plóg. Sigrún var ekkert voða ánægð því ég fyllti eldhúsið enn einu sinni af sagi. Ég lofa að að það gerist bara einu sinni enn Hissa.

Annars er ég hættur að hlaupa í bili því ég lufsaðist til að snúa mig í Esjunni fyrir rúmri viku síðan. Vorum í á niðurleið í annari ferð þegar stór steinn þvældist fyrir mér. Sparkaði í hann með hægri og missteig mig í leiðinni á vinstri. Ökklinn er því búinn að vera tvöfaldur síðan. Sleppi því Mývatnsmaraþoni en stefni á að komast á Laugaveginn.

Set inn myndir eftir hentugleikum.


Vinna í eldhúsi o.fl.

Holan full af floti

Þá er undirbúningsvinna í eldhúsinu í fullum gangi. Fékk Kidda Ha til að aðstoða og vera til ráðgjafar varðandi pípulagnir. Teiknuðum fyrst hitalögnina á gólfið og hreinteiknaði ég hana svo. Fékk leigða tvíblaða sög í Húsasmiðjunni og hóf að saga gólfið  til að geta komið rörunum fyrir. Brothamar var svo notaður til að brjóta upp úr sagarfarinu. Þetta var hörkupúl en samt ekki eins erfitt og þegar við Bjössi mágur brutum bara með brothamri alla hitalögnina á neðri hæðinni, á baðinu og í forstofunni. Ég hefði sennilega borið beinin með brothamar í höndunum hefði Bjössi ekki hjálpað þá! Kiddi kom svo á laugardag og þá lögðum við 60m langt hitarör í gólfið og gengum frá Danfoss krana o.s.frv. Í gær flotaði ég svo í sárið sem var öllu meira mál en ég hafði ímyndað mér. Mér var sagt af konu sem ég þekki að ég vandaði mig allt of mikið. Kannski er það satt Óákveðinn. Núna má eldhúsinnréttingin fara að koma og skilst mér á Sigrúnu að hún komi á föstudaginn. Þá á bara eftir að setja hana upp. Vonandi fæst mannskapur í það.

Annars  fór Sigrún með tvo vinnumenn í Tungu á laugardag, þá Sigurð og Björn Rúnar. Sigurður verður út sauðburð en Björn Rúnar sennilega í tvær vikur ef amma hans gefst ekki upp á honum. Hef samt enga trú á því. 

 Börkur kom á föstudag heim úr óvissuferð eftir samræmdu prófin.  Vel heppnað að hans sögn. Sjá á síðunni hans Barkarblogg. Það er gaman að segja frá því að ég hef aldrei kynnst öðrum eins sjálfsaga hjá 15 ára strák og hjá Berki fyrir samræmdu prófin. Minn maður lærði samviskusamlega fyrir prófin og sleppti öllu stressi. Ákvað að halda sig við þessa aðferð sem ég held að sé skynsamlegt. Vildi að ég hefði gert þetta líka (þ.e. sleppt stressinu).


Fleiri myndir

Jökull: Nýr fjölskyldumeðlimur.

Jökull Jökulsson

Í gær bættist nýr meðlimur í okkar fjölskyldu. Hann heitir Jökull. Móðir hans er svört og faðir hans gulur. Þau eru samt hvorki afrísk né kínversk og ekki af ætt manna. Jökull er sem sagt hundur af Labrador Retriever kyni. Þetta er svo sem búið að standa til lengi en bar samt brátt að. Sigrún hafði farið í frænkupartý og komist að því að Palli Páls frændi hennar ræktaði Labrador hunda. Hún hafði því samband við Palla sem sgðist vera með einn fjögurra mánaða gamlan hvolp sem hann þyrfti að losna við. Skutumst við því í morgun til Hellu til Palla og Höllu og til að gera langa sögu stutta þá kom Jökull með okkur heim. Jökull er hreint ótrúlega yfirvegaður hvolpur og hvers manns hugljúfi. Er búinn að athuga allt hér innanhúss hátt og lágt og læra á húsið og okkur. Honum finnst svolítið erfitt að fara upp og niður stigann en það er allt að koma.

Jökull líkist pabba sínum meira en lítið og er eilítið kubbslegur en ofboðslega sætur. Endilega skoðið myndirnar af kappanum í albúminu. Bæti við fleiri myndum fljótlega. Hér er albúmið

 Ættbók Jökuls hjá Hundaræktarfélaginu hér.


Skemmtilegt að bíða

Fólk að bíða á laugardaginnFór í gær að skrá syni mína og vini á sumar- og ævintýranámskeið hjá KFUM í Vatnaskógi. Mættum um kl. 2 og var þá margt um manninn. Komumst fljótt að því að á undan okkur voru um 100 manns og því ljóst að við yrðum að bíða nokkuð lengi eftir því að komast að. Á sama tíma var í gangi vorhátið KFUM sem var óvænt skemmtun. Biðin sem okkur sýndist að yrði leiðinleg og löng varð því skemmtileg enda magt góðra skemmtiatriða. Á skjá við hliðina á sviðinu gat maður svo fylgst með hvar í röðinni maður var og því notið skemmtiatriðanna áhyggjulaus yfir því að mæta of seint í skráninguna með númerið sitt. Frábær framkvæmd hjá þeim KFUM mönnum.  Sigurður komst svo í Vatnaskóg 11.-17. júlí og Björn Rúnar á ævintýranámskeið á svipuðum tíma.

Í dag skelltum við okkur svo á matarsýninguna í Smáranum. Mest bar á tilbúnum pítsum og öðru jukki. Keypti samt gómsæt laxahrogn úr Eyjafirði og fékk gefins kæfu og pylsur frá Goða. Eyfirðingarnir voru frumlegastir þarna. Buðu  m.a. upp á frábæra saltfiskrétti og bláskel. Tvíreykt hangiket smökkuðum við líka og var það aldeilis frábært. Sigurður kom út með fimm poka af örbygjupoppi og slatta af blöðrum.

 Hljóp 21km í gær og er að spekúlera að setja upp hlaupadagbók hér á síðunni til að fylgjast með magni æfinga. Var frekar þungur sérstaklega í Fossvogsdalnum en varð léttari eftir að ég kom fyrir Kársnesið. Hljóp sem sagt að heiman upp í Víðidal, niður Elliðaárdalinn, í gegnum hólmann, út Fossvogsdalinn, fyrir Kársnesið, inn Kópavogsdalinn og aftur heim. Góður rúntur, en svolítið erfiður síðasta spölinn.

Börkur á rafgítarBörkur  tók miðprófið í gítarnáminu á föstudaginn og gekk vel að eigin sögn. Ég get vel trúað því, því hann var búinn að æfa sig gríðarlega mikið. Þetta eru því orðin 7 ár sem drengurinn er búinn að læra á gítar og er hann orðinn mikill snillingur á þessu sviði. Til hamingju með þennan áfanga Börkur minn.


Hlaupasumarið 2006

Í mark

Jæja, þá er undirbúningur fyrir hlaupasumarið 2006 í fullum gangi (Mývatnsmaraþon, Laugavegurinn og Reykjavíkurmaraþon t.a.m.). Hlaupum svona 40-50 km á viku en þurfum að fara að auka það smátt og smátt þegar liða tekur að sumri. ÍR-hópurinn gefur gott aðhald á mánudögum og miðvikudögum þegar teknar eru alls konar styrktar- og þrekæfingar. Þá er hlaupið upp og niður tröppur, brekkur o.s.frv. Á laugardögum er svo hlaupið lengra ca 20-30 km. Í apríl bætum við svo við Esjuferðum. Byrjum á einni ferð í hvert sinn en ætli þær verði ekki tvær þegar kemur fram í maí. Þetta eru einhver bestu æfingar sem hugsast getur og fer manni ótrúlega mikið fram eftir hverja ferð. Svo er að vona að maður verði í toppformi í júlí því bæta á tímann á Laugaveginum umtalsvert. Sjáum hvernig fer.

 


Hrútavinafélagið

Vildi bara taka af allan vafa um að ég sé einhver ManU aðdáandi þó ég fari á leiki með því liði. Minn klúbbur er hinn ágæti, en illa staddi, Derby County. Já,  "those were the days..." Næsta þema verður áreiðanlega Derby County þema. Heimasíða hrútanna

ManU vinnur pottþétt

Hvernig ætli ManU gangi á móti WBA á laugardag? WBA eiga örugglega eftir að berjast eins og ljón, en samt finnst mér líklegt að ManU vinni ca. 3-1. Rooney skorar fyrst, svo jafnar WBA, Ronaldo bætir við og svo kemur Nistelrooy inná og gulltryggir sigurinn. Hlæjandi

Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband